Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson laumaði sér á Djerba International skákhátíðina sem fram fer á eyjunni Djerba í Túnis. Mótið er flokkaskipt, sterkt lokað mót fer fram samhliða góðu opnu móti en Björn tekur þátt í opna mótinu. Að loknum fjórum umferðum hefur Björn 3,5 vinning og er í fínum sénsum.
Beinar útsendingar klikkuðu úr 1. umferð en þar vann Björn sigur gegn FIDE-meistaranum Benoit Rene (2108) með svörtu mönnunum.
Skák Björns í 2. umferð á mánudag var í beinni. Þar hafði Björn hvítt gegn kvenna FIDE meistaranum Juliette Cornileau (2144). Björn beitti Reti-byrjun og fór á peðaveiðar í miðtaflinu sem voru áhættusamar en báru árangur. Björn skilaði sér heill úr veiðunum og landaði sigri.
Í þriðju umferð sem var jafnframt fyrri skákin á tvöföldum degi hafði Björn nú svörtu mennina. Andstæðingur hans var Marokkóbúi Mohamed Achour (2066) sem hafði lagt tvo titilhafa að velli. Björn vildi rugla hann í ríminu og fór í vafasamt riddaraflakk í byrjuninni til að ná því markmiði. Skákin var ein allsherjarbarátta en Björn náði með seiglu og meiri reynslu að hafa Norður-Afríkumanninn undir!
Í fjórðu umferð hafði Björn hvítt gegn Amir Zaibi (2352) stórmeistara og heimamanni. Björn tefldi peðsfórn í Catalan sem gefur ágætis frumkvæði en Zaibi náði að kveða það niður og fékk óþægilega langtímapressu í hróksendatafli þó nokkuð augljóslega hafi stöðumatið verið jafntefli.
Eftir langtíma tilfærslur fram og til baka var Birni loks á í messunni.
71.Hc2?? (71.Hd8 er jafnt tafl) hefði getað kostað skákina þar sem svarti kóngurinn kemst inn sama hvað á d3 eða f3 eftir 71…He3+ sem betur fer fann Túnisbúinn ekki rétta framhaldið og baráttan hélt áfram.
Túnisbúinn teygði sig of langt í vinningstilraunum og greinilega að þreytan var farin að segja til sín hjá báðum.
Björn fékk dauðafæri en lék 84.g4?? sem gefur vinninginn og skákin nú jafntefli. 84.Ka3! hefði verið vinningsleikurinn. Hvíti hrókurinn fer svo á g4 og svartur á enga vörn við annaðhvort Hb4+ og Hxb3 eða Hc4+ og Hc3 í framhaldinu með auðunnu tafli.
Jafnteflið engu að síður ásættanlegt fyrir Björn miðað við gang mála.
Á miðvikudeginum er frídagur og hraðskákmót en 5. umferð fer fram á fimmtudaginn og þá hefur Björn svart gegn stórmeistaranum Paul Velten (2505) sem hefur unnið allar skákir sínar og er efstur.