Teflt verður við glæsilegar aðstæður í Krúttinu.

Icelandic Open – Opna Íslandsmótið í skák fer fram í Blönduósi dagana 15.-21. júní n. Tefldar verða níu umferðir á sjö dögum. Skákhátíðin hefst með aðalfundi SÍ sem fram fer laugardaginn 14. júní og lýkur með sterku hraðskákmóti, Blönduós Blitz, sem fram fer 22. júní.

Búið er að opna fyrir skráningu í mótið. Góð verðlaun verða á mótinu og verða þau gerð opinber í vikunni.

Teflt verður Krúttinu sem er afar skemmtilegt viðburðarrými í Blönduósi. Nánari upplýsingar um Krúttið má nálgast hér.

Nánari upplýsingar um skákhátíðina á Blönduósi

Á Blönduósi eru nokkrir staðir sem bjóða upp á gistingu og hefur Skáksambandið samið við Hótel Blönduós og Glaðheima um sérstakt tilboð fyrir þá sem sækja mótið heim.

Hótel Blönduós er staðsett í Gamla Bænum og rekur jafnframt veitingastað og bar. Þau bjóða upp á ýmis tilboð fyrir skákgesti á meðan á mótinu stendur og í aðdraganda þess. Tilboðin verða auglýst nánar síðar. Á boðstólnum verður meðal annars sérstakur skákseðill, hamingjustund og fleira skemmtilegt og hagstætt.

Hótelið mun verða miðpunktur mótsins og er t.d. Krúttið þar sem mótið fer fram einungis 29,5 skrefum frá anddyri hótelsins. Morgunverðar- og veitingasalur hótelsins er á jarðhæðinni líkt og móttaka hótelsins. Á sama svæði, eða uppi á palli er barinn Sýslumaðurinn staðsettur og þar munu lifandi skáklýsingar fara fram. Sýslumaðurinn og veitingasalurinn verður opinn í takt við dagskrá mótsins.

Sýslmaðurinn

Mitt á milli Hótel Blönduós og Krúttsins er Apótekarastofan þar sem hægt verður að næla sér í léttan bita, súpur, kaffi og léttar veitingar.

Á Blönduósi er einnig Eþíópískur veitingastaður sem heitir Teni og höfum við viðrað það við rekstraraðila þar að vera með sérstök skáktilboð sem verða kynnt síðar.  Rétt við þjóðveginn er svo veitingastaðurinn B&S sem bíður upp á rétti dagsins ásamt góðu úrvali af allskyns góðgæti. Rekstraraðilar þar tóku líka vel í það að bjóða upp á sérstök tilboð og sérstakan skákseðil fyrir mótsgesti og verða þau tilboð sömuleiðis kynnt síðar.

Glaðheimar við Blönduós

Glaðheimar eru staðsettir hægra megin við þjóðveginn við N1 og bjóða þeir uppá nokkrar tegundir húsa í gistingu fyrir allt að 8 manns saman í bústað. Verð á gistingu fyrir 7 nætur er allt frá 49.000 kr á mann, allt eftir því hvaða gisting er valin.

Hér að neðan má sjá sundurliðun á verðum hjá Hótel Blönduósi og Glaðheimum. Innifalið í verði hjá Hótelinu er morgunverður og er veittur 5% auka afsláttur sé bókað fyrir 31.mars n.k. Jafnframt þarf að ljúka við bókun hjá Glaðheimum fyrir 31.mars þar sem húsin eru frátekin á sérverðum fyrir Skáksambandið.

Athugið að þessi verð eru í gildi til 31.mars og gildir hin gamla tugga, fyrstur kemur fyrstur fær!

Til þess að panta herbergi eða gistingu á Hótel Blönduósi skal hafa samband í tölvupósti á netfangið : blonduos@laugarbakki.is   eða hringja í síma 699-1200 og taka fram að gistingin sé vegna Skáksambandsins.

Til þess að panta sumarhús eða herbergi á Glaðheimum skal hafa samband í tölvupósti á netfangið: gladheimar@simnet.is eða hringja í síma 820-1300 og taka fram að bókunin sé vegna Skáksambandsins.Undibúningur hátíðarinnar er enn í fullum gangi og verða nánari upplýsingar kynntar eftir framvindu. Upplýsingar um frekari þjónustu eins og gistingu, afþreyingu og veitingastaði má finna á heimasíðu Húnabyggðar.

Komin er upp heimasíða um mótið sem er þó ennþá í vinnslu. Hún verður uppfærð og lagfærð á næstu dögum.

Jafnframt er komið upp skráningarform í mótið. Vakin er athygli á því að 20% afsláttur á þátttökugjöldum til 31. mars nk.

- Auglýsing -