Gunnar Björnsson var sjálfkjörinn forseti Skáksambands Íslands í tíunda sinn á aðalfundi Skáksambandsins í gær. Gunnar jafnar því met Guðmundar G. Þórarinsson eftir þetta kjörtímabil en Guðmundur sat í 10 ár samtals í tveimur hlutum.

Með Gunnari í stjórn voru sjálfkjörin: Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Omar Salama, Róbert Lagerman, Stefán Steingrímur Bergsson, Þorsteinn Stefánsson og Þórir Benediktsson. Þórir tekur sæti Björns Ívar Karlssonar í aðalstjórn.

Í varastjórn voru kjörin: Óskar Long Einarsson, Kristófer Gautason, Gauti Páll Jónsson og Hörður Jónasson. Gauti tekur sæti Hjörvars Steins Grétarssonar.

Fundurinn var í styttra lagi en hann tók um 1,5 klukkustundir. Pálmi R. Pétursson og Þorsteins Þorsteinsson drógu til baka í upphafi fundar tillögu sína um Íslandsmót skákfélaga um úrslitakeppni fjögurra efstu liða mótsins. Það var mat fundarstjóra um leið félli niður framkomin breytingatillaga um sex liða úrvalsdeild. Enn á ný gerist það á aðalfundi Skáksambands Íslands að ekki er tekin efnisleg afstaða til tillagna um Íslandsmót skákfélaga.

Í skýrslu forseta kom fram að starfsárið 2017-18. Hafi verið viðburðarríkt og árangur íslenskra skákmanna góður.

Haldið hafi verið stórt og öflugt Reykjavíkurskákmótið, alþjóðlegt áfangamót (Norðurljósamótið) og alþjóðlegt unglingamót (minningarmót um Steinþór Baldursson). Á starfsárinu hafi einnig verið haldið vel heppnað Norðurlandamót stúlkna á Borgarnesi. SÍ stóð því fyrir fjórum alþjóðlegum mótum.

GAMMA Reykjavíkurskákmótið hafi gengið vel og hliðarviðburðir hafi tekist einkar vel og þá sérstaklega Fischer-slembiskákarmótið og heimsókn Susan Polgar og stúlknaviðburðir henni tengdir. Færði forseti Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur, sérstakar þakkir fyrir hennar skipulagningu.

Gunnar sagði alþjóðlega unglingamótið hafa gengið vel og vonandi yrði framhald á því en Breiðablik hefur lýst yfir áhuga sínum á slíku mótahaldi.

Forseti sagði þátttökuleysi íslenskra áfangaveiðara á Norðurljósamótinu hafi ollið vonbrigðum og framhald slíks mótahalda ólíklegt að hálfu SÍ miðað við óbreyttar aðstæður. Gunnar hvatti í lokaræðu sinni íslensk skákfélög til dáða varðandi alþjóðlegt móthald og benti á að hér fyrr á árum hafi félögin hafi margoft haldið slík mót. Gunnar lofaði veglegum stuðningi Skáksambandsins við slíkt mótahald félaganna.

Fjórir áfangar skiluðu sér í hús á starfsárinu. Bragi Þorfinnsson náði sínum lokaáfanga og varð fjórtándi íslenski stórmeistarinn. Davíð Kjartansson, Dagur Ragnarsson og Sverrir Þorgeirsson náðu allir áföngum að alþjóðlegum meistaratitli.

Jóhann Hjartarson varð Norðurlandameistari í skák og Lenka Ptácníková varð Norðurlandameistari kvenna. Nansý Davíðsdóttir varð Norðurlandameistari stúlkna og Oliver Aron Jóhannesson og Hilmir Freyr Heimisson urðu Norðurlandameistarar í skólaskák. Fimm norðurlandameistaratitlar í hús á starsárinu.

Gunnar fór yfir komandi starfsár. Icelandic Open er framundan nú í júní. Ólympíuskákmót í september og sagðist forseti gera ráð fyrir að val íslensku liðanna yrðu tilkynnt fljótlega eftir mótið. Reykjavíkurskákmótið verður haldið í apríl nk. og Ísland haldi Norðurlandamót í skólaskák í febrúar nk. og vonandi í Borgarnesi. Upplýst var að Icelandic Open yrði haldið á Akureyri 2019 í tilefni 100 ára Skákfélags Akureyrar og fór Áskell Örn Kárason yfir metnaðarfullar fyrirætlanir Akureyringa um veglega afmælishátíð.

Tímaritið Skák kemur út aftur í haust eftir smá hlé. Jafnframt upplýsti forseti að unnið sé að uppfærslu á Skák.is, heimasíðu Skáksambandsins og á mótaáætlun SÍ en allt megi bæta verulega. Er sú vinna nýhafin en vefsíðuhönnuður er Tómas Veigar Sigurðarson.

Gunnar kom þá hugmynd að í haust yrði haldið málþing sem þar sem helstu mál skákhreyfingar yrðu rædd eins og útbreiðslustarf, staða skákarinnar á landsbyggðinni, sem er mörgum áhyggjuefni, afreksstefna og þá einnig fyrirkomulag Íslandsmót skákfélaga sem mörgum hugleikin. Var vel tekið í þá hugmynd.

Árskýrsla SÍ fyrir starfsárið 2017-18 er væntanlega á Skák.is næstu daga. Fundargerð aðalfundar verður birt þegar hún liggur fyrir.

- Auglýsing -