Icelandic Open – Íslandsmótið í skák – fer fram í Valsheimilinu 1.-9. júní nk. Mótið fer fram með óvenjulegu fyrirkomulagi en teflt verður í einum opnum flokki en ekki með hinu hefðbundna fyrirkomulagi lokaðs landsliðs- og opins áskorendaflokks. Mótið er jafnframt Íslandsmót kvenna og unglingameistaramót Íslands. Erlendum skákmönnum er heimil þátttaka en þeir geta eðli málsins samkvæmt ekki orðið Íslandsmeistarar.

Icelandic Open – Íslandsmótið í skák var haldið fyrst með samskonar fyrirkomulagi árið 2013 – þá í tilefni 100 ára afmælis Íslandsmótsins í skák. Góður rómur var gerður að því móti og nú fimm árum síðar hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn. Þess má reyndar geta að stjórn Skáksambands Íslands hefur þegar ákveðið að mótið fari fram með sama fyrirkomulagi að ári – þá á Akureyri í tilefni 100 ára afmælis Skákfélags Akureyrar.

Mótið nú er jafnframt minningarmót um Hermann Gunnarsson, sem reyndist skákhreyfingunni ávallt drjúgur og ómetanlegur liðsauki. Hermann var sjálfur sterkur skákmaður og aufúsugestur meðal gesta á skákmótum en hann bætti oft skákfréttum inn í innslög sín sem íþróttafréttamaður. Hermann lést langt um aldur fram meðan Icelandic Open fór fram árið 2013. Í lokahófi þess móts minntust keppendur Hermanns sérstaklega.

Tefldar verða 10 umferðir og hefst tafl kl. 16:30.

Flestir sterkustu skákmenn landsins eru skráðir til leiks. Hannes Hlífar Stefánsson, tólffaldur Íslandsmeistari í skák er stigahæstur skráðra keppenda. Auk hans eru stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson og Þröstur Þórhallsson skráðir til leiks.  Þrír fyrrum Íslandsmeistarar taka þátt – auk Hannesar eru það Þröstur sem varð Íslandsmeistari árið 2012 og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson sem vann nokkuð óvæntan sigur árið 2001.

Lenka Ptácníková er lang sigurstranglegust í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna en auk hennar eru Guðlaug Þorsteinsdóttir og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir líklegastar til þess að blanda sér í baráttuna.

Átta erlendir keppendur eru skráðir til leiks og þar af eru þrír alþjóðlegir meistarar sem gætu blandað sér í toppbaráttuna.

Mótið verður sett í Valsheimilinu, föstudaginn 1. júní kl. 16:30. Ekki er ljóst á þessari stundu hver mun setja mótið en það skýrist fljótlega. Góð aðstaða er fyrir gesti þar sem boðið verður upp á skákskýringar og heitt kaffi á könnunni.

Enn er opið fyrir skráningu í mótið. Henni verður lokað á miðnætti á morgun 31. maí.

- Auglýsing -