Helgi Áss vann Jón Viktor

Línur hafa heldur betur skýrst á Íslandsmótinu í skák. Tveir skákáhugamenn, sem hvorugur hefur skák að atvinnu, þótt stórmeistarar séu, berjast um Íslandsmeistaratilinn. Háskólakennarinn, Helgi Áss Grétarsson (2460), stendur mun betur að vígi, en hann hefur vinningforskot á, fasteignasalann Þröst Þórhallsson (2416) fyrir lokaumferðina sem hefst kl. 11 í fyrramálið. Áhugamennirnir að slá við atvinnumönnunum í ár!

Helgi Áss vann Jón Viktor Gunarsson (2472) í velútfærðri skák á fyrsta borði. Þröstur lagði Lenku Ptácníková (2230) að velli.

Helga bíður hins vegar það erfiða verkefni á morgun að hann mætir, stigahæsta skákmanni landsins, Héðni Steingrímssyni (2583), með svörtu, á meðan Þröstur mætir FIDE-meistaranum Sigurbirni Björnssyni (2295) með hvítu. Vinni Þröstur og tapi Helgi tefla þeir úrslitaeinvígi á morgun með styttri umhugsunartíma. Helga dugir hins vegar jafntelfi eða bara það að Þröstur vinni ekki Sigurbjörn til að tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistartitil. Þröstur varð íslandsmeistari í skák árið 2012.

Héðinn Steingrímsson (2583) er þriðji með 5½ vinning eftir sigur á Hannesi Hlífar Stefánssyni (2541) í uppgjöri tveggja skákmanna mótsins.

Hannes er í 4.-8. sæti með 5 vinninga ásamt Sigurirni, Braga Þorfinnssyni (2445), Jóni Viktori og Vigni Vatnari.

Stöðuna má finna á Chess-Results.

Lenka Ptácníková (2284) hefur hálfvinnings forskot á Guðlaugu Þorsteinsdóttur (1983) í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna. Hin unga og efnilega Iðunn Helgadóttir (1163) gerði sér lítið fyrir og vann Hjálmar Sigurvaldason (1538) þrátt fyrir mikinn stigamun.

Rétt er að benda á frábæran árangur hins unga og efnilega Benedikt Briem (1624), sem vann í dag Eirík Björnsson (1959).

Röð efstu manna í verðlaunaflokkum:

Íslandsmót kvenna

 1. Lenka Ptácníková 5½ v.
 2. Guðlaug Þorsteinsdóttir 5 v.
 3. Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir 3½ v.

Unglingameistaramót Íslands (u22)

 1. Vignir Vatnar Stefánsson 6 v.
 2. Gauti Páll Jónsson 5½ v.
 3. Aron Þór Mai 5½ v.
 4. Benedikt Briem 5½ v.

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (+2000)

 1. Helgi Áss Grétarsson (+262)
 2. Gauti Páll Jónsson (+113)
 3. Þröstur Þórhallsson (+86)

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (-2000)

 1. Benedikt Briem (+434)
 2. Hörður Garðarsson (+255)
 3. Arnar Heiðarsson (+234)

Langflestar skákir morgundagsins verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum (öppunum) Follow Chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni og tilvalið að skoða minningarvegginn um Hemma Gunn.

- Auglýsing -