Sveit Íslands sem teflir í opnum flokki ólympíumótsins í Batumi í Georgíu vann öruggan sigur á sterkri sveit Letta, 2½:1½, í 2. umferð sem fram fór í gær. Jóhann Hjartarson og Guðmundur Kjartansson unnu á öðru og fjórða borði, Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli á þriðja borði en Héðinn Steingrímsson tapaði á 1. borði. Um tíma var útlit fyrir stórsigur Íslands því að Héðinn átti um tíma unnið tafl gegn Igor Kovalenko og Hannes átti góða vinningsmöguleika gegn Nikita Neskovs.

Eftir sigurinn hefur íslenska sveitin hlotið fjögur stig, eins og 40 aðrar sveitir. Sveitin vann auðveldan 4:0-sigur á reynslulitlum Palestínumönnum í 1. umferð. Mótherjinn í dag er sterk sveit Ísraela, en á 1. borði þar teflir Boris Gelfand, sem fyrir fimm árum háði einvígi um heimsmeistaratitilinn við Indverjann Anand.

Eftir 4:0-sigur yfir Samveldi Bahamaeyja í 1. umferð tapaði kvennalið Íslands fyrir Hollendingum 1:3 í gær. Guðlaug Þorsteinsdóttir vann Önnu Haast á 2. borði. Lenka Ptacnikova, Nansý Davíðsdóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir töpuðu öðrum skákum viðureignarinnar. Íslenska kvennasveitin teflir í 3. umferð í dag við IPCA, sem er alþjóðleg sveit hreyfihamlaðra.

Sigur Guðmundar Kjartanssonar á 4. borði í gær var snaggaralegur en Lettinn sem beitti skoska leiknum kom ekki að tómum kofunum hjá Guðmundi, sem svaraði óvenjulegum drottningarleik með því að fórna tveim peðum. Ekki vildi Lettinn þiggja peðin en lenti í miklum erfiðleikum vegna stöðu drottningar á e2. Hann taldi sig sloppinn fyrir horn þegar 15. leikur svarts kom honum í skilning um annað:

Ólympíumótið í Batumi 2028; 2. umferð:

Toms Kantans – Guðmundur Kjartansson

Skoskur leikur

1. e4 e5 2.Rf3 Rc6 3. d4 exd4 4.Rxd4 Rf6 5.Rxc6 bxc6 6. De2!?

Hér er oftast leikið 6. e5 De7 7. De2 Rd5 8. c4, en þessi leikur hefur sést í skákum Nakamura, Navara og fleiri góðra manna.

6…. d5!?

Snarplega svarað og partur af undirbúningsvinnu Guðmundar. Eftir 7. exd5+ Be7 8. dxc6 0-0 er svartur á undan í liðskipan, hótar 9…. He8 og þá stöðu vildi Lettinn ekki tefla.

7. Bg5?! Be7 8.Rd2 0-0 9. 0-0-0 Hb8 10. f3 He8

Skynsamlega teflt. Svartur stillir hrókum sínum upp á hálfopnum línum og er þegar kominn með betra tafl.

11.Rb3 h6 12. Be3 Bd6 13. Bxa7?

Þetta peðsrán á eftir að reynast dýrkeypt. En það er ekki auðvelt að finna haldgóða leiki.

13…. Ha8 14. Df2 dxe4 15. Kb1

Valdar a2-peðið og hyggst koma biskupinum á a7 undan. En næsti leikur Guðmundar kom Kantans í opna skjöldu.

15…. c5!

Með hugmyndinni 16. Bxc5 Bxc5! 17. Hxd8 Bxf2 og riddarinn valdar e8-hrókinn. Biskupinn á sér enga undankomuleið!

16. Bb5 e3 17. De2 Hxa7 18. Bxe8 Dxe8 19. Hhe1 Da4 20.Rc1 Be6 21. b3 Da5 22. c4

Ekki 22. Dxe3 Rd5! o.s.frv.

22…. Bf5+ 23.Rd3 Be5 24. a4 Dc3 25. Ka2

Kóngurinn leitar skjóls. Góður leikur er nú 25…. Bd4 en Guðmundur gerir út um taflið á fljótvirkari hátt.

25…. Hxa4+! 26. bxa4 Dxc4+ 27. Ka3 Be6!

Hvítur er óverjandi mát og gafst upp.

Skákir ólympíumótsins eru sýndar í beinni á ýmsum vefsvæðum og hefjast umferðirnar kl. 11 að íslenskum tíma. Benda má á Chessbomb.com og Chess24.com. Heimasíða mótsins er http://batumi2018.fide.com/en.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 26. september 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -