Skák Boris Gelfand við upphaf skákar sinnar við Aronjan. Við hlið hans situr Anand, þá Kramnik og síðan Anish Giri. — Morgunblaðið/Chessbase

Á opna skákmótinu á Mön þar sem teflt er í þremur stigaflokkum gefst nokkrum af yngstu og efnilegustu skákmönnum landsins kostur á að sitja og tefla í námunda við helstu stjörnur skákarinnar í dag, þar af tvo fyrrverandi heimsmeistara, þá Vladimir Kramnik og Wisvanathan Anand, og tvo sem teflt hafa heimsmeistaraeinvígi: Boris Gelfand og Sergei Karjakin. Í fyrra mætti heimsmeistarinn Magnús Carlsen til leiks og svo skemmtilega vildi til að hann dróst á móti Birki Erni Bárðarsyni í fyrstu umerð, vann þá skák og síðan mótið. Þá – en ekki nú – var raðað í fyrstu umferð á tilviljanakenndan hátt sem varð m.a. til þess að Fabiano Caruana mætti Vladimir Kramnik í fyrstu umferð.

Í stigahæsta flokknum geta skákmenn tekið þátt sem hafa 2100 elostig og meira og þar tefla auk greinarhöfundar, sem er fararstjóri, þeir Vignir Vatnar Stefánsson, Dagur Ragnarsson, Gauti Páll Jónsson og Aron Thor Mai. Þetta mót er svo sterkt að fyrirfram gátu menn gengið að því vísu fá öflugan andstæðing í hverri umferð. Dagur Ragnarsson hefur náð sér vel á strik eftir að hafa tapað tveimur fyrstu skákum sínum, fékk 2½ vinning í næstu þremur og átti unnið tafl gegn geysiöflugum andstæðingi í sjöttu umferð en missti stöðuna niður í tímapressu undir lokin. Greinarhöfundur er að tefla á sínu fyrsta móti á þessu ári og hefur gengið nokkuð vel og er þegar þetta er ritað með 3½ vinning af sex.

Efstu menn voru þessir: 1.-6. Vachier Lagrave, Nakamura, Wojtaszek, Wang Hao, Naiditsch og Jeffrey Xiong með fimm vinninga.

Hálfum vinningi á eftir koma kappar á borð við Anand, Kramnik og Karjakin en þeir sitja með nokkrum öðrum í 7.-17. sæti.

Þrír íslenskir piltar tefla svo í næsta styrkleikaflokki fyrir neðan eða Major-flokknum sem svo er nefndur. Tveir þeirra eru í baráttunni um sigurinn, Stephan Briem var eftir fjórar umferðir af sjö með þrjá vinninga og var í 3.-10. sæti og Alexander Oliver Mai með 2½ vinning í 11.-14. sæti.

Skáklistin á okkar tímum krefst geysimikillar þekkingar á byrjunum og sum afbrigðin verið rannsökuð í þaula með öflugum forritum áður en sest er að tafli. Á þessu fékk Boris Gelfand að kenna í 5. umferð er hann tapaði fyrir lítt þekktum Þjóðverja sem greinilega kann ýmislegt fyrir sér. Gelfand, sem er mikill byrjanasérfræðingur, ákvað að taka slaginn í flóknu afbrigði þar sem hvítur fórnar peði í byrjun tafls. Þannig tefldi Kasparov stundum þegar hann var upp á sitt besta en á einstiginu skrikaði Gelfand fótur:

Opna mótið á Mön 2018:

Rasmus Svane – Boris Gelfand

Enskur leikur

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. g3 c5 4. Rf3 cxd4 5. Rxd4 Dc7 6. Rc3 a6 7. Bg2 Dxc4!? 8. 0-0 Rc6 9. Rb3 d5 10. Bf4 Be7 11. Hc1 Db4 12. a3 Db6 13. e4 dxe4 14. Be3 Dc7 15. Rc5 0-0 16. R5xe4 Bd7

(Vélarnar telja stöðu svarts erfiða viðfangs og að betra hefði verið að leika 16…. Rxe4 17. Bxe4 Bd7 eða 16…. Da5 strax. Niðurstaðan er kannski sú að svartur hefði átti að sleppa peðsráninu í 7. leik.)

17. Rxf6+ Bxf6 18. Ra4!

(Notfærir sér veikleikana á svörtu reitunum.)

18…. Be7 19. b4! Hae8? 20. Bb6 Dd6

(Eða 20…. Dc8 21. Rc5 o.sfrv. )

21. Dxd6 Bxd6 22. Hfd1 Re7 23. Rc3 Rd5 24. Bxd5! exd5 25. Hxd5 He6 26. Hcd1 Bb8 27. Hxd7 Hxb6 28. Rd5 He6

29. Re7+ Kh8 30. Hd8 He1+ 31. Kg2!

– og Gelfand gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 20. október 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -