Lokastaðan Vinur næturvarðarins, Alberto Canagueral, á sviði Laugardalshallar í byrjun september 1972. Á skákborðinu er lokastaðan í síðustu einvígisskákinni. Línurnar í viðnum liggja langsum. — Morgunblaðið/Sigurður Jakobsson

Fyrir nokkrum árum fór af stað umræða um muni sem tengjast einvígi Fischers og Spasskí í Laugardalshöll sumarið 1972. Taflmenn sem notaðir voru í 3. skák voru seldir á uppboði í New York árið 2011 og nokkru síðar tók danska uppboðsfyrirtækið Bruun Rasmussen í Danmörku til sölu eftirlíkingar af því borði sem Gunnar Magnússon hafði hannað fyrir einvígið en verðmætasti gripurinn „innanborðs“ var skákborðið sjálft en á því fór baráttan fram. Efasemdir um að rétt skákborð væri til sölu komu strax fram og voru m.a. byggðar á upplýsingum Þráins heitins Guðmundssonar, fyrrverandi forseta SÍ.

Besta íslenska heimildin um einvígið er bók Freysteins Jóhannssonar og Friðriks Ólafssonar, Fischer gegn Spassky. Freysteinn var blaðafulltrúi SÍ og hafði aðgang að gögnum sem því viðvék. Í bókinni kemur fram að skákir einvígisins voru tefldar á tveim skákborðum, á steinborðinu voru fyrstu skákir einvígisins tefldar, nema sú þriðja sem eins og skákir 7-21 voru tefldar á því tréborði sem hér um ræðir:

„Alls voru smíðuð 19 taflborð til einvígisins,“ skrifar Freysteinn. „Fyrst 4 steinborð, þá 5 tréborð og loks 10 tréborð til viðbótar. Af öllum þessum fjölda tefldu kapparnir aðeins á tveim borðum; steinborði, sem nú er geymt á Þjóðminjasafni Íslands, og tréborði.“

Því er við að bæta að eftir miklar vífillengjur lofaði Fischer að árita 10 tréborð, „…sem ekki verði notuð,“ eins og stendur skrifað í bók Freysteins og Friðriks. Tréborðið sem Þráinn fullyrti að hefði verið notað er í vörslu SÍ og það er óáritað.

Skákborðið sem boðið var upp á uppboðinu hjá Bruun Rasmussen.

Eftir einvígið réðst stjórn SÍ í að láta smíða eftirlíkingar af borði Gunnars Magnússonar húsgagnaarkitekts og keypti athafnamaðurinn Páll G. Jónsson tvö slík en þeim fylgdi skákborð sem Páll taldi greinilega að hefði verið notað í einvíginu – tréborðið.

Hjá Bruun Rasmussen voru gripir þessir settir í söluferli sumarið 2012. Ekki varð af sölu. Hjá Heritage auction í New York í nóvember 2016 voru gripirnir svo aftur til sölu og verðmiðinn á fyrsta boði 120 þús. bandaríkjadalir (tæplega 15 milljónir ísl.) en matsverð á gripunum reiknað upp á 300 þús. bandaríkjadali (tæplega 37 millj. ísl.).

En var verið að bjóða upp rétt skákborð? Mér fannst blasa við að góð ljósmynd myndi leiða sannleikann í ljós en þær fáu myndir sem ég komst yfir og gátu gefið einhverja vísbendingu voru ekki í nægilega góðri upplausn. Eftir nokkra eftirgrennslan ákvað ég að láta staðar numið – um stundarsakir.

Ekki alls fyrir löngu hafði samband við mig gamall kunningi, Júlíus Hjörleifsson. Hann kom á fundi með mér og spænskum manni, Alberto Canagueral, sem skrifaði um einvígið fyrir spænsk blöð. Meðal vina sem hann eignaðist hér á landi var Sigurður Jakobsson, næturvörður í Laugardalshöll meðan á einvíginu stóð. Þegar kvölda tók fór Alberto stundum í Höllina til að heilsa upp á Sigurð. Myndin sem hann sendi mér frá Barcelona og fylgir þessari grein er tekin af sviðinu eftir að síðustu skákinni lauk. Tréborðið sem á voru tefldar skákirnar sextán er þarna í allri sinni dýrð en takið eftir – línur á reitunum vísa í aðra átt. Enn er því fullkomin óvissa um það hvar tréborðið er niðurkomið. Nú þegar styttist í 50 ára afmæli „einvígis aldarinnar“ er æskilegt að sú gáta verði leyst.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 8. desember 2018

Skákþættir Morgunblaðsins.

 

- Auglýsing -