Sarasadat Khademalsharieh frá Íran sló heldur betur í gegn á mótinu. Fékk silfur í báðum mótum! Hún verður meðal þátttakenda á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu. Mynd:: Maria Emelianova/FIDE

Það var góð skemmtun að fylgjast með heimsmeistaramótunum í atskák og hraðskák sem fram fóru í karla- og kvennaflokki í Sankti Pétursborg dagana 26.-30. desember. Skákmót með styttri umhugsunartíma njóta æ meiri hylli meðal skákáhugamanna. Auk þeirra milljóna sem fylgdust með keppninni á netinu var fullt út úr dyrum á skákstað í Sankti Pétursborg. Að venju var heimsmeistarinn Magnús Carlsen í sviðsljósinu og sjónvarpsstöðin NRK, sem hefur gert skákútsendingar eitt vinsælasta sjónvarpsefnið í Noregi, fylgdi honum hvert fótmál alla keppnisdagana. Hrösun er kannski orðið yfir slæma byrjun hans í atskákhlutanum en þar voru tefldar 15 umferðir með tímamörkunum 15 10. Magnús féll á tíma í sigurvænlegri stöðu í 1. umferð og í þeirri næstu lék hann umtöluðustu leiki mótsins:

Magnús Carlsen – Vokhidov

1. e4 e5 2. Dh5?! Rc6 3. Bc4

Ýmis stóryrði voru látin falla um þessa tilraun til að ná heimaskítsmáti en Magnús virtist ekki geta dulið gremju sína eftir tapið í fyrstu umferð. 2. Dh5 er ekki góður leikur; hvítur tapar tíma með þessu drottningarflani. Þetta veit hann manna best. Að lokum tapaði hann skákinni þótt hann hafi skapað sér góð færi um tíma. Norðmenn við skjáinn voru þrumu lostnir en svo fór þeirra maður í gang; hægt og bítandi klifraði hann upp mótstöfluna en einhvern veginn hafði maður á tilfinningunni að hin slæma byrjun myndi alltaf taka frá honum sigurinn. Sem varð reyndin. Hinn 22 ára gamli Rússi Daniil Dubov varð einn efstur með 11 vinninga af 15 mögulegum. Magnús varð í 2.- 5. sæti ásamt Mamedyarov, Nakamura og Artemiev með 10 ½ vinning.

Hraðskákkeppnin stóð í tvo daga og var tefld 21 umferð, tímamörk 3 2. Ég er ekki viss um að nokkur skákmaður hafi náð slíkum gæðum í taflmennsku sinni í hraðskák og Magnús Carlsen í þessu móti. Hann náði snemma forystunni og lét hana aldrei af hendi eftir það, hlaut 17 vinninga af 21 mögulegum og var taplaus. Pólverjinn Jan-Krysztof Duda kom næstur með 16 ½ vinning og Nakamura varð í 3. sæti með 14 ½ vinning.

Ungir skákmenn frá Íran vöktu sérstaka athygli og margt bendir til þess að nýtt stórveldi sé að fæðast í skákinni. Hinn 15 ára gamli Alireza Firouzja, sem var meðal efstu manna í báðum mótunum, hlaut 10 vinninga af 15 í atskákinni og komst í efsta sætið eftir sjö umferðir í hraðskákinni en tapaði þá fyrir Magnúsi og endaði með 12 vinnninga af 21.

Í atskákmóti kvenna sigraði kínverska stúlkan Ju Wenjun og Kateriana Lahno frá Rússlandi vann hraðskákina.

Góð frammistaða Vignis í Hastings

Þegar þrjár umferðir eru eftir af áramótaskákmótinu í Hastings er hinn 15 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson með 4 ½ vinning af sjö mögulegum og er í 8.-17. sæti ásamt Guðmundi Kjartanssyni sem vann sína skák í 7. umferð á fimmtudaginn. Þeir eru vinningi á eftir efsta manni.

Skákþing Reykjavíkur hefst á morgun – Skákhátíð MótX á þriðjudag

Útlit er fyrir góða þátttöku á Skákþingi Reykjavíkur sem hefst á morgun í húsakynnum TR en meðal þátttakenda er Hjörvar Steinn Grétarsson.

Á Skákhátíð MótX sem hefst í Stúkunni á Kópavogsvelli á þriðjudagskvöldið hafa fjölmargir öflugir skákmenn skráð sig til leiks. Nánar verður greint frá þessum mótum í næstu pistlum.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 5. janúar 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -