Hilmar Viggósson lék 1.d4 fyrir Hjörvar Stein gegn Vigni Vatnari. Mynd: PRP

Eins og mörg undanfarin ár hefst skákvertíð með tveim vel skipuðum mótum, Skákþingi Reykjavíkur annars vegar og MótX-mótinu sem fram fer í Stúkunni á Kópavogsvelli hinsvegar. Eins og oft áður eru nokkrir sem tefla í báðum mótunum en það er ánægjulegt hversu góð þátttakan er. Á Skákþingi Reykjavíkur, þar sem teflt er tvisvar í viku, eru þátttakendur 63 talsins en á MótX-mótinu, þar sem teflt er einu sinni í viku, eru keppendur 51 og tefla í tveim flokkum. Stigaþakið er býsna hátt í A-flokki, eða 2.200 Elo-stig, en B-flokkurinn er einnig vel skipaður.

Meðal keppenda eru stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason, Hjörvar Steinn Grétarsson, Þröstur Þórhallsson og Bragi Þorfinnsson. Í 1. umferð sl. þriðjudagskvöld vakti skák Hjörvars Steins og Vignis Vatnars langmesta athygli en baráttan minnti á skylmingar þar sem Vignir var hvað eftir annað nálægt því að koma lagi á andstæðing sinn. En Hjörvar fann nokkra snjalla hróksleiki sér til varnar og hafði sigur:

Hjörvar Steinn Grétarsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Hollensk vörn

1. d4 f5

Vinsæl byrjun hjá ungu skákmönnunum í dag.

2. Bg5 h6 3. Bh4 g5 4. e3 Rf6 5. Bg3 d6 6. Rc3 Be6 7. Bd3 Dc8 8. h4 g4 9. Rge2 Bg7 10. Rf4 Bf7 11. h5 Rc6 12. De2 O-O 13. Bc4 e6 14. f3 He8 15. Bh4

Ónákvæmni að mati „vélanna“ og Vignir hittir á besta svarið.

15. … Ra5! 16. Bd3 e5 17. dxe5 dxe5 18. Rg6 Rxh5?!

Mun betra var 18. … e5. Nú hrifsar Hjörvar til sín frumkvæðið.

19. fxg4 fxg4 20. Be4! He6 21. Rd5 Rc6 22. Dd3 Bxg6 23. Bxg6 Rf4!

Eini leikurinn til að halda taflinu gangandi.

24. exf4 exf4+ 25. Kd2?

Afleitur reitur. Best var 25. Be4 De8 26. O-O-O Hxe4 27. c3! með yfirburðastöðu.

25. … Re5!

Svartur snýr taflinu við!

26. Db3 Rxg6 27. Hae1 Kh8 28. Bf6 Hxf6 29. Rxf6 Dd8+ 30. Rd5 c6 31. He6

Og hér getur svartur unnið með 31. … Rh4!

31. … Kh7? 32. Hh5!

Snarplega teflt, 32. … cxd5 er nú svarað með 33. Dd3! og riddarinn á g6 fellur.

32. … Rf8 33. He7 Rg6 34. Dd3 Dd6

 

 

35. Hd7!

Þessi hróksleikur gerir útslagið.

35. … Dxd7 36. Rf6+ Bxf6 37. Dxd7+ Bg7 38. Hf5 Kh8 39. Kc1 Re5 40. Dxb7 He8 41. Hxf4 Kh7 42. Dxa7 Kg6 43. a4 h5 44. Kb1 h4 45. Df2 Hh8 46. De2 Hh5 47. De4+ Kh6 48. Hf5

– og svartur gafst upp.

Dagur sigraði í Montreal

Dagur Ragnarsson í Kanada.. Mynd: Facebook-síða mótsins.

Dagur Ragnarsson varð efstur ásamt Kanadamanninum Chiku-Ratte á alþjóðlegu móti sem lauk í Montreal í Kanada um síðustu helgi. Dagur hlaut 6½ vinning af níu mögulegum og náði öðrum áfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli. Hann komst einn í efsta sæti eftir fjórar umferðir, hægði ferðina með nokkrum jafnteflum en vann lokaskákina. Dagur er nú með 2.362 Elo-stig en til þess að hljóta útnefningu þarf lágmark 2.400 elo-stig. Dagur er meðal keppenda í MótX-mótinu í Stúkunni.

Hastings-mótinu lauk um svipað leyti, en fyrir síðustu umferð voru Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson aðeins hálfum vinningi frá efsta manni. Vignir þurfti að vinna síðustu skák sína með svörtu til að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en var frekar óheppinn með pörun, tapaði og hlaut 6 vinninga af 10 mögulegum. Hækkaði samt um 15 Elo-stig fyrir frammistöðuna. Guðmundur varð í 7.-10. sæti með 6½ vinning en efstu skákmenn fengu 7 vinninga.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 12. janúar 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -