Skákmeistarinn og milliríkjadómarinn Gunnar Kr. Gunnarsson til vinstri var landsliðsmaður í knattspyrnu og skák. Hann sigraði á afmælismóti Magnúsar V. Péturssonar. Þeir eru jafnaldrar. — Morgunblaðið/Einar S. Einarsson

Á skákdeginum, 26. janúar, afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga, var teflt af miklu kappi um land allt. Þeir alhörðustu eru trúlega í skákfélögum eldri borgara í Reykjavík; hjá KR við Frostaskjól tók skákdeildin daginn snemma og efndi til móts í bítið sem lauk með sigri Ólafs B. Þórssonar. Hinn kunni milliríkjadómari og eigandi Jóa útherja, Magnús V. Pétursson, er mikill skákáhugamaður og hélt upp á 86 ára afmæli sitt sl. þriðjudag með því að efna til skákmóts í húsakynnum FEB í Stangarhyl. Friðrik Ólafsson heilsaði upp á keppendur en Gunnar Kr. Gunnarsson sigraði glæsilega.

Í tilefni þessa afmælis og skákdagsins er ástæða til að rifja upp nokkrar viðureignir Magnúsar við ýmsa fræga menn. Í Moskvu árið 1957 gerði hann jafntefli í fjöltefli við sjálfan Mikhail Tal og í öðru fjöltefli haustið 1989 tapaði hann að vísu fyrir Bent Larsen, en viðureign þeirra var síðar birt í Extrablaðinu danska og leikfléttan sem Bent hristi fram úr erminni til að knýja fram sigur hafði áður öðlast fræðiheitið Mát Bodens en hafði aldrei komið fyrir í skákum Larsens.

Þar sem greinarhöfundur hafði nýverið lokið lestri bókarinnar Listamannalaun fannst mér skemmtilegt að nýfundin gögn sem bárust mér eftir krókaleiðum leiða nú fram eina söguhetjuna úr þeirri bók, súrrealistann Alfreð Flóka, sem harðskeyttan skákmann og Þróttara:

Meistaramót Þróttar 1953:

Alfreð Flóki – Magnús V. Pétursson

Frönsk vörn

1. d4 e6 2. e4 d5 3. Bd3 c5 4. dxc5 Bxc5 5. Bb5+ Bd7 6. Bxd7+ Dxd7 7. exd5 exd5 8. De2+ Re7 9. Rf3 O-O 10. O-O Rbc6 11. c3 Had8 12. b4 Bb6 13. Rbd2 d4 14. Bb2 dxc3 15. Bxc3 Rd5 16. Dc4 Rxc3 17. Dxc3 Bd4 18. Rxd4 Dxd4 19. Dxd4 Hxd4 20. b5 Hxd2 21. bxc6 bxc6 22. Hfd1 Hfd8 23. Hxd2 Hxd2 24. Kf1 g6 25. a4 a5 26. Hc1 Ha2 27. Hxc6 Hxa4

Hér sættust keppendur á skiptan hlut. Þó að svartur sé peði yfir telst staðan fræðilegt jafntefli og það vissi Magnús.

Hjörvar áfram efstur í tveim mótum

Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson gerðu jafntefli innbyrðis í áttundu umferð Skákþings Reykjavíkur. Hjörvar er því með ½ vinnings forskot fyrir lokaumferðina, hefur hlotið 7 vinninga. Guðmundur í 2. sæti með 6 ½ vinning. Í lokaumferðinni á morgun teflir Hjörvar við Þorvarð Ólafsson og Guðmundur við Sigurbjörn Björnsson.

Í 4. umferð skákhátíðar MótX sl. þriðjudagskvöld vann Hjörvar Þröst Þórhallsson og er einn efstur með fullt hús vinninga. Guðmundur Kjartansson, Halldór G. Einarsson og Jón L. Árnason koma næstir með 3 vinninga.

Sjöundi sigur Magnúsar

Magnús Carlsen vann stórmótið í Wijk aan Zee í sjöunda sinn á sunnudaginn er hann gerði jafntefli við Anish Giri í lokaumferðinni. Lokastaðan:

1. Magnús Carlsen 9 v. 2. Giri 8 ½ v. 3.-5. Nepomniachtchi, Liren Ding og Anand 7 ½ v. 6. Vidit 7 v. 7.-9. Radjabov, Shankland og Rapport 6 ½ v. 10. Duda 5 ½ v. 11.-12. Fedoseev og Mamedyarov 5 v. 13.-14. Kramnik og Van Foreest 4 ½ v.

Á einu sterkasta opna móti ársins á Gíbraltar sigraði Rússinn Vladislav Artemiev, hlaut 8 ½ vinning af tíu mögulegum. Í 2. sæti varð 19 ára Indverji, Murali Karthikeyan, með 8 vinninga. Jóhann Hjartarson hlaut 5 ½ vinning af tíu mögulegum. Keppendur voru 251 talsins.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 2. febrúar 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -