Hjörvar Steinn er efstur á Skákhátíð MótX. Mynd: Heimasíða TR.

Hjörvar Steinn Grétarsson vann öruggan sigur á Skákþingi Reykjavíkur sem lauk á sunnudaginn og er því Skákmeistari Reykjavíkur 2019. Hjörvar hlaut átta vinninga af níu mögulegum og varð ½ vinningi fyrir ofan Guðmund Kjartansson sem hlaut 7½ vinning. Guðmundur galt þess að geta ekki teflt í 1. umferð vegna þátttöku sinnar í Hastings og varð að taka dýra ½ vinnings yfirsetu.

Í 3.-5. sæti komu Vignir Vatnar Stefánsson, Björgvin Víglundsson og Jóhann Ragnarsson, allir með 6½ vinning. Þessi niðurstaða er athyglisverð en Vignir Vatnar, sem er aðeins 15 ára gamall, er greinilega á uppleið og Björgvin Víglundsson, sem var tvisvar í ólympíuliði Íslands á áttunda áratug síðustu aldar, hefur verið duglegur að tefla undanfarið. Jóhann Ragnarsson átti eitt sitt besta mót.

Í 6.-10. sæti urðu Sigurbjörn Björnsson, Davíð Kjartansson, Þorvarður Ólafsson, Daði Ómarsson og Gauti Páll Jónsson, allir með sex vinninga.

Sigurbjörn Björnsson komst í efsta sætið með því að vinna fjórar fyrstu skákirnar en missti unnið tafl niður í tap í 5. umferð. Í lokaumferðinni gafst hann of fljótt upp þegar hann tefldi við Guðmund Kjartansson:

Guðmundur – Sigurbjörn

Þessi staða gat komið upp eftir 55. leik hvíts, Be6-f5+.

Það virðist fokið í flest skjól enda gafst Sigurbjörn upp. Var það rétt ákvörðun? Hvað með 55…. Hg6? Eftir 56. Bxe4 er svartur patt! Aðrir leikir duga skammt, t.d. 56. Df7+ Kh8 57. Dxg6 Dg2+! 58. Dxg2 – aftur patt!

En Sigurbjörn á þjáningarbróður því að í 12. umferð stórmótsins í Wijk aan Zee á dögunum gerðist þetta:

Giri – Shankland

Síðasti leikur Giris var 45. b5-b6. Eins og sjá má hefur riddarinn verið króaður af og hlýtur að falla. Shankland sá sæng sína uppreidda og gaf skákina. En leiki hann 45…. Kd6 46. Kg4 Kd7 47. Kxh3 er staðan jafntefli. Hvítur kemst ekki í tæri við b7-peðið án þess að patta svartan. Þessi staða minnir svolítið á lok 1. einvígisskákar Spasskís og Fischers í Laugardalshöll sumarið 1972.

Ef hægt er að draga einhvern lærdóm af þessum dæmum er hann sá að maður á aldrei að gefast upp!

Hjörvar með fullt hús á skákhátíð MótX

Hjörvar Steinn er einnig á góðri leið með að vinna MótX-mótið sem stendur yfir í Stúkunni á Kópavogsvelli þar sem teflt er einu sinni í viku. Eftir fimm umferðir hefur hann unnið allar fimm skákir sínar en í 2.-3. sæti eru Jón L. Árnason og Guðmundur Kjartansson með fjóra vinninga.

Jón L. Árnason hefur teflt vel en var óheppinn gegn Hjörvari Steini eins og rakið var í pistli um daginn. Á þriðjudagskvöldið síðasta vann hann skák sína með svörtu í aðeins 19 leikjum:

Skákhátíð MótX 2019; 5. umferð:

Björgvin Víglundsson – Jón L. Árnason

Enskur leikur

1. c4 e5 2. Rc3 Rf6 3. Rf3 Rc6 4. e4 Bb4 5. d3 d6 6. Be2 h6 7. 0-0 0-0 8. Rd5 Bc5 9. h3 a5 10. Be3 He8 11. a3 Rh7 12. Rd2 Rd4 13. Bg4 c6 14. Bxc8 Dxc8 15. Rc3 Rg5 16. Hc1?

Sennilega leikið til að undirbúa 17. Dg4 en þessi leikur er of hægfara. Hann varð að leika 16. Re2 þótt svarta staðan sé betri.

16…. Rxh3+! 17. gxh3 Dxh3 18. Re2

Eða 18. Bxd4 He6! og vinnur.

18…. Rxe2+ 19. Dxe2 He6!

– og hvítur gafst upp. Það finnst engin vörn við hótuninni 20…. Hg6+.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 9. febrúar 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -