Baráttan á toppnum hélt áfram í fimmtu umferð þar sem hart var barist og einungis örfáar skákir á efstu borðum enduðu með jafntefli. Fjórir skákmenn unnu góða sigra og leiða mótið með 4,5 vinning og þar á meðal er ungstirnið Alireza Firouzja.

Alireza lagði rússneska stórmeistarann Vladimir Potkin með hvítu mönnunum í dag.

Alireza atti kappi við Evrópumeistarann fyrrverandi, Vladimir Potkin frá Rússlandi. Alireza virtist fá lítið úr byrjuninni en óvenjuleg tilfærsla riddarans til d8 færði honum nægt frumkvæði í endatafli til að kreysta fram vinning. Handbragð sem minnir að mörgu leiti á Magnús nokkurn Carlsen!

Armensku félagarnir Robert Hovhannisyan og Sergei Movsesian héldu einnig velli á toppnum. Hovhannisyan með sigri á næststigahæsta keppandanum, Nils Grandelius, á meðan að Movsesian lagði Hannes Hlífar Stefánsson að velli.

Almennt séð gekk ekki vel hjá Íslendingum í toppbaráttunni í dag. Auk Hannesar féll Bragi Þorfinnsson í valinn gegn stigahæsta keppandanum, Gawain Jones, og Guðmundur Kjartansson tapaði gegn Maxime Lagarde eftir að hafa misst af gríðarlega vænlegri leið. Þeir félagar Björn Þorfinnsson og Dagur Ragnarsson unnu þó sigra í sínum skákum og fikruðu sig hærra upp töfluna. Sigurbjörn Björnsson hélt einnig góðu móti sínu áfram með sigri á Andra Frey Björgvinssyni.

Sigurbjörn Björnsson er að eiga mjög gott mót!

Ein skák vakti verðskuldaða athygli þó ekki væri hún á efstu borðum. Hinn ungi Adam Omarsson hefur farið vel af stað á mótinu og það vel að í fimmtu umferð mætti hann móður sinni, Lenku Ptacnikovu! Það hlýtur að teljast fáheyrt ef ekki einsdæmi að svo ungur skákmaður mæti móður sinni á alþjóðlegu móti!

Adam mætir hér Lenku….mamman hafði betur að þessu sinni!

Á morgun, föstudag er frídagur á mótinu. Taflið heldur samt áfram þar sem á frídaginn verður hraðmót í Fischer-slembiskák. Þessu móti var komið á í fyrra í minningu Roberts James Fischer og gaf góða raun. Tefldar verða 9 umferðir með 10+3 umhugsunartíma og efsti keppandi mótsins mun fá sæti í sterkasta Fischer-slembiskákmóti allra tíma!

Heimasíða mótsins

Skákskýringar á ensku (hefjast þegar 2 klst eru liðnar af umferð)

Skákir á Chess24

Hægt er að horfa á skemmtilega útsendingu frá fimmtu umferð hér: https://www.twitch.tv/videos/409556749 …mikið af skemmtilegum skákum og Anna Rudolf leit við í stúdíóið!

- Auglýsing -