Efstur á Xtracon cup Indverska undrabarnið Pragnanandhaa við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Indverska undrabarnið Rameshbabu Praggnanandhaa varð einn efstur á Xtracon mótinu sem lauk í Helsingjaeyri í Danmörku um síðustu helgi. Hann hlaut 8½ vinning af 10 mögulegum og varð ½ vinningi á undan Norðmanninum Aryan Tari, Armenanum Gabríel Sargissjan, Ísraelsmanninum Evgení Potsny og Dananum Allan Stig Rasmussen. Þrír íslenskir skákmenn voru með í mótinu og var Jóhann Hjartarson bestur þeirra, hlaut 7 vinninga. Guðmundur Kjartansson og Hilmir Freyr Heimisson fengu báðir 6 vinninga. Vel er látið af þessu mótshaldi, sem að þessu sinni dró til sín 368 keppendur, en margt er líkt með fyrirkomulagi þess og Reykjavíkurskákmótanna.

Sigurvegarinn, sem verður 14 ára 10. ágúst næstkomandi, hefur líkt og félagi hans, Nihal Sarin, teflt á skákmótum víða um heim undanfarin t.d. á Reykjavíkurskákmótunum og er þegar orðinn geysilega sterkur skákmaður. Að vinna lykilskákir þarf að gerast ætli menn að vinna svona mót. Úkraínumaðurinn Korobov er stórt nafn í skákheiminum en hann virkar stundum dálítið kærulaus. Í þessari stöðu hefði hann að sætta sig við jafntefli sem fæst með því að gera ekki neitt! Sá þanki er fjarri honum og hann lék nú …

45. a4?

Algerlega ónauðsynlegur leikur og Praggnanandhaa svaraði að bragði…

45. … a5!

Fjarlæga frípeðið er gulls ígildi. Staðan er þó enn jafntefli.

46. axb5 Kxb5 47. Bg6??

Korobov virðist ekki hafa gert sér grein fyrir að eftir 47. Bd3+ má svara 47. … Ka4 með 48. Kc5! og þá strandar 48. … Kb3 á 49. Bc4+ og hvítur vinnur.

47. … a4!

Og þessi staða er unnin á svart. Framhaldið varð…

47. Bd3+ Ka5 49. Ke3 a3 50. Kd2 a3 51. Kc1 Kb6

– og Korobov gafst upp. Svartur klófestir peðin og hvíti kóngurinn er læstur inn í horni.

Jóhann Hjartarson tefldi nokkrar góðar skákir og var ½ vinningi frá efsta manni eftir sex umferðir. Tap fyrir Norðmanninum Tari hindraði frekari framgang hans. En lítum á vendipunktinn í skák hans úr 8. umferð:

Xtracon cup 2019:

Martin Haubro – Jóhann Hjartarson

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Rf6 4. e5 Rfd7 5. f4 c5 6. Rf3 Rc6 7. Be3 Be7 8.Dd2 a6 9. dxc5 Rxc5 10. a3Dc7 11.Df2 b6 12. O-O-O O-O 13. Kb1 f5 14. exf6 Bxf6 15.De1 Bd7 16. g3 Hac8 17. Bh3 Hfe8 18. f5 Re4

Á svona augnablikum ráðast úrslit skáka. Það þarf virkilega skarpa sýn á framvinduna til að finna besta leikinn, sem er 19. fxe6 með hugmyndinni 19. … Rxc3+ 20. Dxc3! Taki svartur drottninguna með 20. … Bxc3 kemur 21. exd7 og þetta peð hirðir síðan annan hrókinn og hvíta staðan er unnin eftir það. Svartur leikur betur með 20. … Bxe6 en eftir 21. Bd4 er staðan í jafnvægi. En hvítur lék hinsvegar 19. Rxe4 og eftir 19. … dxe4 20. Bf4 e5 21. Dxe4 Ra5! var staða svarts mun betri og Jóhann sigldi vinningnum í land með nokkrum hnitmiðuðum leikjum: 22. Bc1 Bc6 23. De2 Bxf3 24. Dxf3 Dxc2+ 25. Ka2 e4! 26. Dg2 Db3+ 27. Kb1 Rc4

– og hvítur gafst upp.

EM ungmenna í Bratislava

Í gær hófst í Bratislava í Slóvakíu Evrópumót ungmenna 18 ára og yngri. Íslendingar eiga 11 keppendur í hinum ýmsu aldursflokkum pilta og stúlkna. Stigahæstir eru Hilmir Freyr Heimisson, Vignir Vatnar Stefánsson og Stephan Briem.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 27. júlí 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -