Setið að tafli í Gyllta samnum í Hasselbacken höllinni. Þær Hrund og Sigríður Björg í hópi 164 þátttakenda í opna flokknum. Mynd: HÁ

Allt frá árinu 2012 hefur Skákdeild Fjölnis boðið efnilegum ungmennum deildarinnar upp á þátttöku í fjölmennum alþjóðlegum helgarskákmótum þeim að kostnaðarlausu. Þátttaka Fjölnis hefur ávallt vakið athygli Svíanna fyrir góða þátttöku og árangur. Nansý Davíðsdóttir skráði sig á spjöld sögu Västeråsmótanna árið 2012 þegar hún aðeins 10 ára gömul vann mótið undir 1600 með öruggum og taplausum sigri. Í fyrra var það Dagur Ragnarsson (2249) sem kom, sá og sigraði Västerås mótið ásamt stórmeistaranum Yuri Solodovnichenko (2554), ótrúleg frammistaða Dags sem markaði upphafið að árangursríku skákári.

Í upphafi lokaumferðar í flokknum undir 1600. Þeir Kristján Dagur og Óttar Bergmann eigast við og þiggja góð ráð frá félögum sínum Ísaki Orra og Joshua. Með sigri í skákinni stóð Kristján Dagur uppi sem sigurvegari mótsins og 7,5 vinninga af 8 mögulegum. Mynd: HÁ

Fjölnishópurinn breytti til að þessu sinni frá Västerås og Uppsala og ákvað þess í stað að tefla á alþjóðlega helgarskákmótinu í Hasselbacken í Stokkhólmi en staðurinn er þekktur hótel-og veitingastaður sem á sér sögu allt frá árinu 1760. Í Fjölnishópnum voru að þessu sinni 10 skákmenn á aldrinum 14 – 28 ára. Sex þeirra tefldu í opna flokknum og fjórir í undir 1600 flokknum. Á mótinu var líka mættur efnilegur hópur ellefu Breiðabliksstráka sem tóku þátt í stigalægri flokknum og því 15 íslenskir drengir þar á meðal 85 keppenda. Skemmst er frá því að segja að íslensku strákarnir gerðu sig gildandi á efstu borðunum allar átta umferðirnar. Þar fór fremstur í flokki Kristján Dagur Jónsson með sinni 4. þátttöku í sænskum helgarskákmótum. Kristján Dagur hafði náð forystu strax eftir þrjár umferðir af átta og leit ekki til baka eftir það. Hann vann sex fyrstu skákirnar, gerði jafntefli í þeirri sjöundu og vann Breiðabliksdrenginn Óttar Bergmann Sigfússon i lokaumferðinni. Kristján Dagur kom að landi í 1. sæti með 7,5 vinninga af 8 mögulegum sem verður að teljast afar góður árangur. Þar með fylgdi hann eftir árangri Nansýjar og Dags með sigri á alþjóðlegu sænsku stórmóti.

Skákstaðurinn Hasselbacken í Djürgärden í Stokkhólmi, Hótel-veitinga-og ráðstefnustaður með sögu allt frá 1760. Mynd: HÁ

Strákarnir fjórir í Fjölnishópnum sem tefldu í yngri flokki voru allir að standa sig afar vel og unnu þrír þeirra til verðlauna. Auk Kristjáns sem vann sér inn 3000 kr sænskar þá hlaut Joshua Davíðsson verðlaun fyrir 5. sætið á mótinu og Arnór Gunnlaugsson verðlaun fyrir efsta sætið í „ratings“ hóp. Sá fjórði Anton Breki Óskarsson hækkaði vel á stigum eða um heil 54 ELÓ, litlu minna en Kristján Dagur sem hækkaði um 58 stig.

Jón Trausti Harðarson hlaut flesta vinninga í opna flokknum og tefldi af miklum krafti í öllum skákum. Mynd: HÁ

Í opna flokknum voru það A og B sveitar ungmenni Fjölnis sem tefldu. Oliver Aron Jóhannesson, Jón Trausti Harðarson, Tinna Kristín Finnbogadóttir, Hrund Hauksdóttir, Sigríður Björg Helgadóttir og Jóhann Arnar Finnsson. Í flokknum tefldu 164 þátttakendur og meðalstig rúmlega 2000. Flesta vinninga Fjölnishópsins hlaut Jón Trausti Harðarson, alls 5 af 8 mögulegum og hækkaði hann um 14 stig. Skákdrottningin okkar Hrund Hauksdóttir var þó ábyggilega með bestu frammistöðuna því hún hlaut 4,5 vinninga sem er hækkun upp á 42 ELO í fjórum skákum. Hrund varð í 3. Sæti kvenna á mótinu og vann „ratings“ verðlaun. Af Fjölnishópnum voru sex af tíu að hækka sig á skákstigum sem er afar ánægjulegt þegar um er að ræða svo þétt og sterkt skákmót.

Skákdeild Fjölnis hefur notið velvildar og stuðnings sænskra skákfrömuða og frá sænsk-íslenskum menningarsjóði sem hafa greitt leið ungra Fjölnisskákmanna á sænskri grund í Stokkhólmi , Västerås og Uppsala. Vonandi verður framhald á, því þessar heimsóknir hafa þétt og sameinað hópinn okkar enn frekar. Allir gera sitt besta til að njóta ferðarinnar við frábærar aðstæður og taka þátt í áhugaverðu skákmóti og skákæfingum. Íslandsbanki og Skáksamband Íslands studdu einnig ferðina til Svíþjóðar sem ber að þakka. Fararstjóri var að venju Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis sem hefur tengst þessum krökkum allt frá upphafi skólagöngu. Hann telur sig njóta forréttinda að ferðast og fá að fylgjast með þessum fyrirmyndar skákkrökkum.

- Auglýsing -