Í Prag Landsliðshópur kvenna, frá vinstri: Lisseth Acevedo, Hrund Hauksdóttir, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Tinna Kristín Finnbogadóttir, Sigríður Björg Helgadóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir. — Morgunblaðið/Helgi Ólafssson

Ólympíumótið í skák fer að þessu sinni fram í Moskvu og hefst í byrjun ágúst. Nokkrar þeirra sem ef að líkum lætur munu tefla fyrir Íslands hönd í kvennaflokknum héldu á dögunum til Prag, en um síðustu helgi hófst þar opið mót sem er liður í mótasyrpu sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið í Tékklandi. Það hefur verið gaman að fylgjast með af hliðarlínunni, en greinarhöfundur var fenginn til að aðstoða hópinn við skáklegan undirbúning. Áskell Örn Kárason verður hins vegar þjálfari og liðsstjóri liðsins í Moskvu.

Framan af móti vakti Guðlaug Þorsteinsdóttir mesta athygli fyrir frammistöðu sína, en hún var margoft að tefla upp fyrir sig eins og það er kallað. Og fleiri í þessum sjö kvenna hópi hafa náð að bæta duglega við sig.

Fyrir síðustu umferð sem fram fór í gær var Lenka Ptacnikova með flesta vinninga, 4½ vinning af átta mögulegum. Þar á eftir kom Jóhanna Björg Jóhannsdóttir með 4 vinninga en síðan Guðlaug og Tinna Kristín Finnbogadóttir.

Í stigalægri flokknum hafði Adam sonur Lenku hækkað sig um nálega 150 Elo-stig eftir fjóra sigra í röð. Jósep, sem er 8 ára gamall, hafði einnig staðið sig vel.

Tökum skák sem rifjar upp gamlar minningar fyrir ákaflega óhefðbundna uppbyggingu sóknar:

Opna mótið í Prag 2020; 6. umferð:

Lubos Privoznik – Tinna Kristín Finnbogadóttir

Slavnesk vörn

1. b3 Rf6 2. e3 d5 3. Bb2 Bf5 4. Rf3 e6 5. c4 Rbd7 6. Be2 Bd6 7. Rc3 c6 8. Hc1 O-O 9. O-O Hc8 10. Rh4 Bg6 11. Rxg6 hxg6 12. d4

Fremur hversdagsleg staða sem hefur helstu einkenni slavneskrar uppbyggingar. En skyldi einhverjum detta í hug að svartur ætti sóknarfæri eftir h-línunni?

12. … Kh7?!

Þessi tilfærsla kóngs og hrók sem kemur hróknum á h-línuna er harla „benónýsk“ því hún sást nokkrum sinnum í skákum Benónýs Benediktssonar, t.d. á Reykjavíkurskákmótinu árið 1970. Nú liggur beinast við að opna miðborðið með 13. Bf3 og síðan e3-e4 en hvítur fer sér hægt.

13. Rb1?! Re4 14. Ba3 Bxa3 15. Rxa3 Hh8 16. cxd5 exd5 17. Rc2 Kg8

Þá er leiðin „greið“ eftir h-línunni.

18. Re1 Dh4 19. Rf3 Dh6 20. h3 f5

Gott var einnig 20. … g5. Sóknaráætlun svarts hefur algjörlega gengið upp.

21. Bd3 Rdf6 22. Bxe4 dxe4

Betra var sennilega 22. … Rxe4 ásamt g6-g5.

23. Re5 g5 24. f3?

Hann reynir að spyrna við fótum en missir af góðum varnarleik, 24. b4! með hugmyndinni 24. … g4? 25. Db3+ Rd5? 26. Dxd5+! og vinnur.

24. g4 25. fxg4 Dxe3+ 26. Kh1 f4 27. Rg6?

27. g5 var betra og svartur á varla meira en þráskák.

27. … Hxh3+ 28. gxh3 Dxh3+ 29. Kg1 Dg3+30. Kh1 Dh3+ 31. Kg1 f3!

Nákvæmt leikið.

32. Re7+ Kf7 33. Hf2 Hh8 34. Hxf3 exf3 35. Dc2 Dg3+

– og hvítur gafst upp.

Efstur á tvennum vígstöðvum

Eins og svo margir aðrir tekur Guðmundur Kjartansson þátt í Skákþingi Reykjavíkur og MótX-mótinu, skákhátíð Hugins og skákdeildar Breiðabliks. Hann hefur unnið allar skákir sínar á þessum tvennum vígstöðvum og er þ.a.l. efstur í Faxafeni og í Stúkunni á Kópavogsvelli.

Á Skákþinginu er hann með fjóra vinninga af fjórum mögulegum og deilir toppsætinu með Sigurbirni Björnssyni.

Á MótX-mótinu hafa verið tefldar tvær umferðir og þar er Guðmundur einnig á toppnum með Hjörvari Steini Grétarssyni.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 18. janúar 2020.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -