Tveir góðir Hjörvar Steinn og Guðmundur Kjartansson tefldu saman í 3. umferð. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson
Þess var getið í síðasta pistli að Sigurbjörn Björnsson hefði tryggt sér sigur á Skákþingi Reykjavíkur 2020. Þar með öðlaðist hann sæmdarheitið Skákmeistari Reykjavíkur í fyrsta sinn. Hann vann skák sína í lokaumferðinni og sigraði því með fullu húsi, hlaut níu vinninga af níu mögulegum.Skakhátíð MótX í Stúkunni á Kópavogsvelli hófst um svipað leyti og skákþingið en þar hefur verið teflt einu sinni í viku, sjö umferðir alls, og mun mótinu ljúka þriðjudaginn 18. febrúar nk. Til þessa mótahalds var á sínum tíma stofnað af Jóni Þorvaldssyni og honum tókst að fá til keppni kunna meistara sem höfðu ekki teflt opinberlega í langan tíma. Nú nýtur Jón dyggrar aðstoðar skákdeildar Breiðabliks og þá einkum Halldórs G. Einarssonar sem einnig hefur verið það sem kallað er teflandi skákdómari. Hann hefur stundum fengið þekkta meistara til að aðstoða við skákstjórnina. Allt hefur þetta gengið prýðilega. Teflt er í tveimur flokkum, A og B, en inngönguskilyrðin í stigahærri flokkinn miðast við 2.220 elo-stig þó að gerðar hafi verið undantekningar.

Eins og oft áður hafa óvænt úrslit sett svip á keppnina. Í fyrstu þremur umferðunum vann stigahæsti keppandinn, Hjörvar Steinn Grétarsson, allar skákir sínar og voru menn farnir að velta því fyrir sér hvort hann næði að endurtaka afrek sitt frá ÍS-Skyr-mótinu á Selfossi á dögunum þegar hann sigraði með fullu húsi vinninga. En í fjórðu umferð tapaði hann fyrir Ingvari Þ. Jóhannessyni og aftur í fimmtu umferð þegar hann mætti Degi Ragnarssyni . Þessir tveir eru efstir ásamt Guðmundi Kjartanssyni, allir með fjóra vinninga. Í B-riðli er Arnar Milutin Heiðarsson efstur með 4½ vinning.

Það eru heilmikil gæði í taflmennskunni. Þegar greinarhöfund bar að garði sl. þriðjudagskvöld sátu þessir tveir yfir athyglisverðri stöðu:

Þröstur Þórhallsson – Guðmundur Kjartansson

Guðmundur hafði gefið skiptamun á c6, virtist djarft teflt því að drottningin er í skotlínu biskupsins. Getur hvítur leikið 27. Rg5+ með hugmyndinni 27…. fxg5 28. Dxf8? Guðmundur hafði reiknað dæmið rétt því hann á 28…. De6 eða 28…. Dc3 og framhaldið gæti orðið 29. Df2 Dxb3+ 30. Db2 Dxe3 og biskupar svarts njóta sín vel í opinni stöðu. Þess vegna valdi Þröstur réttilega 27. Hd4! sem Guðmundur svaraði hvergi banginn með 27…. Bf5.

Aftur gat Þröstur látið reyna á stöðu drottningarinnar á c6 og leikið 28. Dxf5! með hugmyndinni 28…. gxf5 29. Rg5+! Nú eru kostirnir tveir:

a) 29…. fxg5 30. Bxc6 g4 31. Hd7! Hf7 32. He1 og hér eru möguleikar hvíts betri.

b) 29…. Bxg5 30. Bxc6 Bxe3 31. Hd7 Bc5 32. Bb7! og svartur á við ramman reip að daga.

Sennilega hefur Þröstur verið undir áhrifum fyrra mats á aðstæðum og sleppti því þessu tækifæri. Hann átti ágæt færi en fékk á sig mikinn hnykk í 32. leik og tapaði. Framhaldið varð:

28. Hc1 De6 29. Ka2 a5 30. Hc5 Hc8 31. Hxc8 Dxc8 32. Dd2? Bxe3!

33. Dxe3 Dc2+ 34. Ka1 Dxg2 35. Rd2 e5 36. Hd8 Dc6! 37. Da7+ Rg7 38. Dg1 Dc7 39. Hd5 Dc3+ 40. Ka2 Dc2+ 41. Ka1 Dc3+ 42. Ka2 Be6! 43. Hd6 Dc7!

Hrókurinn á engan góðan reit á d-línunni.

44. Rc4 Bxc4 45. Db6 Bxb3+! 46. Kxb3 Dc3+ 47. Ka2 Dc2+ 48. Ka1 b3

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 8. febrúar 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -