Heimsmeistari Boris Spasskí fylgist með viðureign Petrosjans og Fischers. Við hlið hans styður Tal hönd við kinn og framar kljást Hort og Polugajevskí. — Ljósmynd/Informant

Fyrir 50 árum nánast upp á dag lauk í Belgrad í Júgóslavíu keppni þar sem áttust við úrvalslið Sovétríkjanna og heimsliðið. Keppnin fór fram á 10 borðum og var tefld fjórföld umferð. Varamaður í heimsliðinu var Friðrik Ólafsson, ótvíræður heiður sem sýndi sterka stöðu hans á alþjóðavettvangi skákarinnar. Júgóslavar áskildu sér þann rétt að velja þrjá heimamenn í liðið, Gligoric, Ivkov og Matulovic, en þeir hlutu einungis fjóra vinninga af 12 mögulegum. Friðrik kom inn fyrir Reshevskí á 6. borði heimsliðsins í lokaumferðinni en tapaði fyrir Smyslov.

Þessi keppni var án efa einn af stærstu skákviðburðum 20. aldar og tókst framkvæmdin geysilega vel. Allir bestu skákmenn heims voru mættir til Belgrad og Sovétmenn stefndu að yfirburðasigri enda valinn maður í hverju rúmi með heimsmeistarann Boris Spasskí fremstan í flokki. Þeim gekk miðlungi vel að raða niður á borð enda við að eiga hverja prímadonnuna á fætur annarri meðal liðsmanna. Innan heimsliðsins var ástandið svipað. Max Euwe, heimsmeistari 1935-’37, var fenginn til að velja liðið og raða mönnum niður á borð. Hann skipaði Bobby Fischer á 1. borð en því mótmælti „önnur fiðla“, Bent Larsen, kröftuglega og vísaði m.a. til þess að Fischer hefði hætt þátttöku á millisvæðamótinu í Túnis 1967. Júgóslavar höfðu sent mann yfir hafið til að semja við Fischer en eftir útspil Larsens var ekki talið líklegt að hægt væri að koma þessum tveimur saman á svið. En okkar maður samþykkti óvænt að taka stöðu á 2. borði og heimsliðið gat hafið keppni með fullskipað lið.

Larsen tapaði í 17 leikjum í 2. umferð fyrir Spasskí en þar sem sú magnaða skák hefur birst áður í þessum pistlum færum við okkur upp á annað borð. Skákferill Fischers virtist í uppnámi á þessum tíma en í Belgrad hófst einstæð sigurganga í skáksögunni. Hann vann fyrstu skákina og aftur þá næstu og síðan einvígið við Petrosjan, 3:1. Sovétmenn mörðu sigur samanlagt, 20½:19½, og gátu þakkað gamla varðliðinu, Botvinnik, Keres og Smyslov, sem vart stigu feilspor. En úrslitin á fyrstu fjórum borðunum, 5½:10½, voru álitshnekkir fyrir „sovéska skákskólann“:

Heimurinn – Sovétríkin 1970; 1. umferð:

Bobby Fischer – Tigran Petrosjan

Caro Kann-vörn

1. e4 c6 2. d4 d5 3. exd5 cxd5 4. Bd3 Rc6 5. c3 Rf6 6. Bf4 Bg4 7. Db3 Ra5 8. Da4+ Bd7 9. Dc2 e6 10. Rf3 Db6 11. a4!

Endurbót á gamalli skák Capablanca sem fékk að leika –Bb5.

11. … Hc8 12. Rbd2 Rc6 13. Db1 Rh5 14. Be3 h6 15. Re5 Rf6 16. h3 Bd6 17. 0-0 Kf8 18. f4 Be8 19. Bf2 Dc7 20. Bh4 Rg8 21. f5!

Uppbygging svarts hefur mislukkast og þetta var rétti tíminn til að brjótast í gegn.

21. … Rxe5 22. dxe5 Bxe5 23. fxe6 Bf6 24. exf7 Bxf7 25. Rf3 Bxh4 26. Rxh4 Rf6 27. Rg6 Bxg6 28. Bxg6

28. … Ke7!

Kóngur varnarjaxlsins Petrosjans virtist króaður af úti í horni en hann eygði þann möguleika að komast í skjól á á drottningarvæng.

29. Df5 Kd8 30. Hae1 Dc5 31. Kh1 Hf8 32. De5 Hc7

Ekki 32. … Dc7 vegna 33. Dxd5+! og vinnur.

33. b4 Dc6

34. c4! dxc4 35. Bf5!

Hvítreita biskupinn var í sérstöku uppáhaldi hjá Fischer.

35. … Hff7 36. Hd1 Hfd7

Eða 36. … Rd7 37. He1 o.s.frv.

37. Bxd7 Hxd7 38. Db8+ Ke7 39. Hde1+

– og Petrosjan gafst upp, 39. … Kf7 er svarað með 40. De8 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 4. apríl 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -