Þröngt á þingi Spasskí t.v. og Fischer við taflið í Siegen.

Fyrir 50 árum fór fram á ólympíumótinu í Siegen viðureign Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Á 1. borði mættust heimsmeistarinn Boris Spasskí og Bobby Fischer. Engin skák þessa árs vakti meiri athygli. Spasskí, sem hafði orðið heimsmeistari sumarið 1969, hafði sigrað á þremur sterkum alþjóðlegum mótum, unnið Bent Larsen í 17 leikjum í keppni Sovétríkjanna gegn heimsliðinu í Belgrad um páskaleytið þetta ár, og einungis tapað einni skák frá því hann varð heimsmeistari. Bobby Fischer hafði lagt Petrosjan 3:1 á 2. borði heimsliðsins, unnið stórmót í Júgóslavíu og Argentínu með óheyrilegum yfirburðum og hlotið 19 vinninga af 22 mögulegum á óopinberu heimsmeistaramóti í hraðskák í Svartfjallalandi, 4½ vinningi fyrir ofan Tal.

Spasskí bar krúnuna með glæsibrag en Fischer var eins manns herdeildin sem allir óttuðust. Í Siegen rak hjálparhella hans, fyrrverandi ofursti í bandaríska flughernum, Ed Edmundson, erindi fyrir þingi FIDE sem snerist um að Bobby fengi keppnisrétt á millisvæðamótinu á Mallorca síðar um árið.

Viðureign risaveldanna fór fram í 6. umferð. Í síðasta sinn stilltu Bandaríkjamenn upp liði með einstaklingum, sem allir höfðu tekið út skákþroska sinn í Bandaríkjunum, og jafnframt í fyrsta og eina skiptið sem Fischer og Reshevsky tefldu saman í ólympíuliði:

Ólympíumótið Siegen 1970:

Boris Spasskí – Bobby Fischer

Grünfelds-vörn 1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. e4 Rxc3 6. bxc3 Bg7 7. Bc4 c5 8. Re2 Rc6 9. Be3 0-0 10. 0-0 Dc7 11. Hc1 Hd8 12. h3

Spasskí lék 12. De1 í skák þeirra í Santa Monica 1966. Hann þekkti andstæðinginn og vissi að endurbóta var að vænta.

12. … b6 13. f4 e6 14. De1 Ra5 15. Bd3 f5 16. g4 fxe4 17. Bxe4 Bb7 18. Rg3 Rc4 19. Bxb7 Dxb7 20. Bf2

Ekki 20. dxc5 vegna 20. … Hd3! o.s.frv. 20. … Dc6 21. De2 cxd4 22. cxd4 b5 23. Re4!?

Færni Spasskís í miðtöflum á þessum árum var annáluð. Hann gat valdað peðið á d4 en vildi freista andstæðingsins.

23. … Bxd4 24. Rg5 Bxf2+ 25. Hxf2 Hd6 26. He1 Db6 27. Re4 Hd4 28. Rf6+ Kh8 29. Dxe6! Það er talið að Fischer hafi nú ætlað að leika 29. … Hd1 sem lítur vel út en séð hvað Spasskí hafði í huga, 30. Df7! og eftir 30. … Hxe1+ 31. Kg2 Re3+ leikur hann 32. Kf3! (ekki 32. Kg3 vegna 32. … Rf5+ 33. gxf5 De3+ og 34. … De7) t.d. 32. … Dc6+ 33. Kg3 Hg1+ 34. Kh4 Hxg4+ 35. hxg4 Dh1+ 36. Kg5 og vinnur.

29. … Hd6 30. De4 Hf8 31. g5 Hd2 32. Hef1 Dc7?!

Betra var 32. … Kg7 eða 32. … Hc8.

33. Hxd2 Rxd2 34. Dd4 Hd8?

34. … Db6 gaf jafnteflisvon þó að hvíta staðan sé betri eftir 35. Dxb6 axb6 36. Hd1 Hd8 36. Kg2.

35. Rd5+ Kg8 36. Hf2 Rc4 37. He2! Hd6 38. He8+ Kf7

39. Hf8+! -og Fischer gafst upp.

Þetta var mikill sigur fyrir Spasskí. Aðrar viðureignir féllu í skuggann en voru engu að síður mjög áhugaverðar. Reshevsky sætti sig að vísu snemma við jafntefli gegn Petrosjan á 2. borði en Larry Evans var nálægt því að vinna Polugajevskí á 3. borði. Á 4. borði fór svo fram hatrömm barátta séra Lombardys við Efim Geller. Eftir að skákin fór í bið var Lombardy með gjörunnið tafl og lokastaðan var sennilega unnin hjá honum en hann virtist ekki gera sér grein fyrir hvernig hann gæti sloppið úr þráskák. Sovétmenn unnu því þessa viðureign, 2½:1½.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 12. september 2020.

- Auglýsing -