Teflt í Viðeyjarstofu Gunnar Erik Guðmundsson (t.v.) sigraði á Meistaramóti Skákskóla Íslands sem haldið var í Viðey dagana 5. og 6. september sl. Hér teflir hann við Adam Omarsson í næstsíðustu umferð. — Morgunblaðið/SÍ

A-riðill Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur er að öllum líkindum sá best skipaði sem um getur í sögu þessa merka móts. Samsetningin er ekki ósvipuð þeirri sem var í landsliðsflokki Skákþings Íslands í Garðabæ á dögunum; af tíu keppendum tefldu fimm á Íslandsþinginu, þ.ám. Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson. Hinir hefðu allir sómt sér vel í því móti.

Ein skýringin á góðri þátttöku okkar bestu manna á haustmótinu er vitaskuld sú að Covid-faraldurinn hefur lokað fyrir þátttöku á alþjóðavettvangi. Töfluröðin gaf þessa niðurstöðu: 1. Sigurbjörn Björnsson. 2. Halldór Grétar Einarsson. 3. Bragi Þorfinnsson. 4. Guðmundur Kjartansson. 5. Helgi Áss Grétarsson. 6. Sigurður Daði Sigfússon. 7. Davíð Kjartansson. 8. Vignir Vatnar Stefánsson. 9. Símon Þórhallsson. 10. Hjörvar Steinn Grétarsson.

Þriðja umferð mótsins fór fram í gærkvöldi en Hjörvar Steinn er einn efstur eftir að hafa unnið tvær fyrstu skákir sínar. Guðmundur vann Vigni Vatnar í 2. umferð en skákinni við Davíð Kjartansson úr fyrstu umferð var frestað. Bragi Þorfinnsson var með 1½ vinning.

B-flokkurinn er einnig vel skipaður og þar hefur Lenka Ptacnikova tekið forystu með tveimur sigrum.

Fyrsta opinbera viðureign Kasparovs og Magnúsar Carlsens síðan í Reykjavík 2004

Af svipnum að dæma var ljóst að Garrí Kasparov taldi sig eiga alls kostar við hinn 13 ára gamla Magnús Carlsen fyrir 16 árum þegar þeir mættust í Reykjavík rapid á NASA við Austurvöll í einhverri frægustu skák 21. aldar. Þetta var rifjað upp um daginn er stóra skákhátíðin í Saint Louis, sem öll fer fram á netinu, hófst með keppni, „Fischer random-móti“ eða því sem kallað var „Chess9LX“. Þeir tefldu í 2. umferð og nú var fjarlægðin á milli þeirra jafnvel enn meiri en var í Reykjavík forðum því að Kasparov sat í New York en Magnús í Bærum í Noregi. Kasparov slapp með jafntefli í hróksendatafli peði undir og virtist í góðum málum eftir sigur í 1. umferð. En hann slakaði á og þegar upp var staðið deildu Magnús og Nakamura sigrinum, hlutu báðir sex vinninga af níu mögulegum en Kasparov hlaut 3½ vinning og varð einn í 8. sæti.

Næsti liður á dagskrá var svo skákmót með styttri umhugsunartíma, fyrri hlutinn atskák með tímamörkunum 25:5 og seinni hlutinn hraðskák, tímamörk 5:3. Keppendur 10 talsins og atskákin hefur meira vægi, fyrir sigur þar eru gefin tvö stig en eitt fyrir sigur í hraðskákinni.

Norðmaðurinn tapaði fyrir Nepomniachtchi snemma móts þegar sambandið rofnaði í jafnteflislegri stöðu en fastlega má búast við því Nepo skili vinningnum með „sjálfsmarki“ í seinni hluta mótsins. Þrátt fyrir þetta var staða hans ekki slæm þegar fyrri helmingnum lauk á fimmtudagskvöldið. Þá var Wesley So efstur með 13 stig af 18 mögulegum, Magnús kom næstur með 12 stig og Nepomniachtchi og Grischuk í 3.-4. sæti með 10 stig.

Eftirfarandi staða kom upp í fimmtu umferð. Síðasti leikur svarts var býsna útsmoginn kóngsleikur, Kh8-h7, og Kúbumaðurinn svaraði með Dd3-e4:

Skákhátíðin í St. Louis 2020:

Lenier Dominguez – Magnús Carlsen

37. … Hxb2+! 38. Kxb3 d3+ 39. Kc1

Eða 39. Kb1 Db3+ 40. Kc1 Bg5+! 41. Hed2 Dc2 mát!

39. … Dc5+ 40. Kd2

Eða 40. Kb1 Db5+ 41. Db4 dxe2! o.s.frv.

40. … Dc2+ 41. Ke1 Bh4+ – og Dominguez gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 19. september sl.

- Auglýsing -