Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson hefur lokið sinni þátttöku á Heimsbikarmótinu í Sochi. Hjörvar sýndi fína takta en þurfti að lúta í dúk gegn Maxim Matlakov (2688) í 2. umferð mótsins. Eins og í fyrri skákinni fékk Hjörvar klárlega sín færi í miðtaflinu en fann ekki bestu leiðirnar í krefjandi stöðu. Jafntefli varð niðurstaðan í skák dagsins og Matlakov tók einvígið 0,5-1,5.

Heimsbikarmótinu því lokið að þessu sinni hjá Hjörvari en hann getur vel við unað í frumraun sinni á þessu móti og vonandi nýtist þessi reynslu til frekari landvinninga í framtíðinni. Hjörvar sýndi í báðum skákunum við Matlakov að hann getur átt í fullu tré við 2700-stiga skákmenn og unnið þá á góðum degi!

Matlakov fer því áfram og mætir annaðhvort Wojtaszek eða Alekseev. Sigurvegarinn þar mætir svo líklegast Magnus Carlsen í fjórðu umferð en Magnus fór áfram í sínu einvígi 2-0 þrátt fyrir örlítið hikst í seinni skákinni gegn Sasa Martinovic. Engin sérlega óvænt úrslit voru komin í annarri umferð en þó var Alireza Firouzja í hættu en náði að bjarga sér fyrir horn í bráðabana.

- Auglýsing -