Fyrsti leikurinn Kasparov lék fyrsta leikinn fyrir Vachier-Lagrave á skákmótinu í Zagreb sem hófst á miðvikudaginn. Hann mun tefla í hraðskákhluta mótsins sem hefst kl. 13 í dag. — Ljósmynd/Grand Chess Tour

Sænski stórmeistarinn Ulf Andersson sem varð sjötugur 27. júní sl. tefldi í fyrsta sinn á Íslandi á 5. Reykjavíkurskákmótinu veturinn 1972. Hann vann nokkur athyglisverð endatöfl í því móti en frægasta skák hans þar var þó gegn Úkraínumanninum Leonid Stein. Stein var þá nýbúinn að vinna Aljekín-mótið í Moskvu ásamt Anatolí Karpov. Kynslóð Andersons sem oft er kennd við ártalið 1951 tók yfir sviðið á sinn hátt eftir að Bobby Fischer hvarf af sjónarsviðinu. Af þessum einstaklingum stóð Karpov fremstur en auk hans og Svíans má nefna Jan Timman, Ungverjana Ribli og Sax og Filippseyinginn Torre.

Eftir Ólympíumótið í Siegen í V-Þýskalandi árið 1970 fékk sænska dagblaðið Expressen Andersson og Bobby Fischer til að tefla eina skák en hver leikur viðureignarinnar birtist svo á síðum blaðsins á hverjum degi þá um haustið. Fischer vann glæsilega og leitt hefur verið að því líkum að taflmennska hans hafi haft svo mikil áhrif á Ulf að skákstíll hans hafi síðar tekið stakkaskiptum. Það skipti ekki öllu máli hvort hann hafði hvítt eða svart; oft stillti hann peðum sínum þannig að þau þokuðust varla fram yfir sjöttu eða þriðju reitaröðina. Þannig þæfðist hann skák eftir skák, mót eftir mót, ár eftir ár. Tapaði sjaldan en vann alltaf nokkrar skákir „… því að jafnteflin eru góð meðal vinninganna,“ sagði hann gjarnan. Hann leitaði snemma eftir drottingauppskiptum og mönnum lærðist fljótt að eilítið betra endatafl var ógnvænlegt vopn í höndum Svíans. Í byrjun níunda áratugarins komst hann í fjórða sæti heimslistans og tefldi á 1. borði gegn Karpov í keppni Heimsliðsins við Sovétríkin í London vorið 1984.

En stíll Andersson hafði sínar takmarkanir og það var honum ljóst. Alltof oft voru sömu stöðurnar að koma upp og jafnteflunum rigndi niður. Við upphaf alþjóðlegs skákmóts í Svíþjóð árið 1995 tefldi Ulf frábæra skák við einn öflugasta stórmeistara heims, sem fékk mig til að sjá hann í nýju ljósi:

Österskärs 1995:

Boris Gelfand – Ulf Andersson

Nimzo-indversk vörn

1. d4 e6 2. c4 Bb4+ 3. Rc3 Re7

Óvenjulegur leikur og afar sjaldséður.

4. Dc2 O-O 5. e3 c5 6. Bd3 h6 7. a3 Bxc3 8. Dxc3 cxd4 9. exd4 d5 10. c5 b6 11. Rf3 bxc5 12. dxc5 f6 13. b4 e5 14. Bc2 Bf5 15. Bb3 Kh8 16. O-O d4 17. Db2 Rbc6 18. b5 e4!

– Sjá stöðumynd 1 –

Bregst hart við. Hann gat einnig leikið 18. … Ra5.

19. Rh4 Re5 20. Rxf5 Rxf5 21. De2 d3 22. Dxe4 Rd4 23. Bd1 He8

Hér og í næsta leik sniðgekk Ulf einföldustu leiðina sem var að hirða b5-peðið.

24. Kh1 f5 25. De3 Dh4 26. Df4 Dxf4 27. Bxf4 Rxb5 28. Bh5 g6 29. Hae1

29. … gxh5 30. Hxe5 Hxe5 31. Bxe5+ Kg8 32. Hd1 He8 33. f4 Rxa3 34. Hxd3 Rc4 35. Bd4 Hd8

„Hógvær“ leikur og kannski sá besti. Annar möguleiki var 38. … He1+ 39. Bg1 Hc1.

36. c6 Kf7 37. c7 Hc8 38. Hg3

Vitanlega gat hvítur náð jafntefli með 38. Bxa7 Hxc7 en Gelfand var að tefla til sigurs.

38. … Ke6 39. Hg7?

Teygir sig of langt. Hann gat enn hirt a7-peðið með jafnteflislegri stöðu.

39. … a5!

Grípur tækifærið.

40. Hh7 Kd5 41. Bc3 a4 42. Kg1 a3 43. Kf2 a2 44. Ke2 Rd6! 45. Kd3 Rb5!

Tveir snjallir riddaraleikir og svarta staðan er unnin.

46. Bb2 Hxc7 47. Hxh6 Ha7 48. Hxh5

48. … Ha3+! 49. Kd2 Ke4 50. g4 Hf3 51. gxf5 Hf2+ 52. Kc1 Rd4

– og Gelfand gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 10. júlí 2021 

- Auglýsing -