Öflugur Praggnanandhaa við taflið á Reykjavíkurskákmótinu 2019. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hjörvar Steinn Grétarsson féll úr leik í 2. umferð heimsbikarmóts FIDE sem nú stendur yfir í Sotsjí við Svartahaf. Hjörvar átti dágóð færi í báðum skákunum gegn Rússanum Maxim Matlakov en tapaði, ½:1 ½. Fjórða umferð hófst á fimmtudaginn og voru þá 32 keppendur eftir, þ.á m. heimsmeistarinn Magnús Carlsen sem hafði þá unnið allar fjórar skákir sínar úr annarri og þriðju umferð með sannfærandi taflmennsku. Hann hefur ekki þurft að berjast til sigurs í skákum með styttri umhugsunartíma og farið sparlega með orkuna. Fyrri skák hans við Pólverjann Radoslaw Wojtaszek lauk með jafntefli eftir 34 leiki en Magnús, sem hafði svart, bauð nokkuð óvænt upp á skiptan hlut í flókinni stöðu sem vélarnar mátu heldur betri á hann.

Þetta heimbikarmót hefur sannað að elo-stigatala keppenda segir ekki allt um möguleika keppenda því nokkrir af stigahæstu keppendunum hafa fallið úr leik. Caruana tapaði fyrir Rinat Jumbayev frá Kazakstan, Giri fyrir Nodirbek Abdusattorov frá Uzbekistan og Mamedyarov fyrir Haik Martirosjan frá Armeníu.

Það er greinilega að koma fram ný kynslóð geysilega öflugra skákmanna og má þar t.d. nefna Indverjann Praggnanandhaa sem lagt hefur tvo reynda kappa, fyrst Armenann Grabriel Sargissjan, 2:0, og Pólverjann Krasenkow í aukaskákum:

Heimbikarmót FIDE 2021; 3. umferð, 3. skák:

Praggnanandhaa – Krasenkow

Það standa öll spjót að kóngsstöðu svarts og nú kom atlagan…

30. Rxf6! Bxf6 31. Hxf6! Rxf6 32. Bxe5 Dd8 33. Rg5 Bh3+ 34. Hxh3 Hb7 35. Dc3!

– og Krasenkow gafst upp.

Praggnandhaa hóf glímu sína við Frajkkann Vachier Lagrave í 4. umferð á fimmtudaginn og lauk skák þeira með jafntefli. Annar Indverji, Santos Vidit, hefur einnig komist fram hjá öllum hindrunum. Hægt er að mæla með útsendingum frá mótinu á Chess24.com.

Snyrtilegt handbragð

Hannes Hlífar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson tefla nú á hverju mótinu á fætur öðru í Tékklandi, Póllandi og Serbíu og í síðustu viku varð Hannes einn efstur í lokuðu móti í Prag, hlaut 6 ½ vinning af 9 mögulegum. Guðmundur Kjartansson tók á sama tíma þátt í minningarmóti um Miguel Najdorf í Varsjá í Póllandi. Hann hlaut 5 vinninga af 9 mögulegum og hafnaði í 46. – 67. sæti af 174 keppendum.

Hinn 18 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson hyggst taka þátt í a.m.k. þrem alþjóðlegum mótum í sumar og þegar ein umferð var eftir af því fyrsta sem fram hefur farið í Arendjolovac í Serbíu var Vignir í 5. – 6. sæti með 4 vinninga af 8 mögulegum. Árangur hans þó yfir væntingum því hann er einn stigalægsti keppandinn í lokuðum flokki og í seinni hlutanum hefur hann sýnt góða takta sbr. eftirfarandi dæmi:

Akva Gold 1; 6. umferð:

Azer Mirzoev (Aserbadsjan) – Vignir Vatnar

Hvítur var búinn að vera í krappri vörn en ekki alveg ljós hvernig best er að tefla í þessari stöðu. Vignir fann lausnina:

45. … a2! 46. Hd8+ Kf7 47. Ha8 Hxh2 48.Hxa1 f3+! 49. Kd3 g3!

Notfærir sér leppun f2-peðsins og a7-reiturinn er valdaður af biskupinum.

50. Ha5 g2

– og hvítur gafst upp.

Akva Gold 1; 7. umferð:

Vignir Vatnar – V. Varshini (Indland)

 

48. d6! cxd6 49. Rf6! gxf6 50. Dxf6+ Hg7 51. Hc7

– og svartur gafst upp.

 

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 24. júlí 2021 

- Auglýsing -