Skákdeild Fjölnis hýsti Íslandsmót skákfélaga enn og aftur en nú á nýjum og glæsilegu vettvangi í íþróttasal Egilshallar. Egilshöll er mikið mannvirki sem hýsir margs konar starfsemi; íþróttasali, kvikmyndahús, pítsastað, keilu, þrekmiðstöð, sjúkraþjálfun ofl. Veitingasala var að þessu sinni í höndum ungra skákstúlkna í Skákdeild Fjölnis sem stóðu vaktina með sóma ásamt bakvakt foreldra.

Það virtist álit þátttakenda Íslandsmótsins að aðstaðan í Egilshöll væri sú besta sem boðið hefur verið upp á frá upphafi.

Skákdeild Fjölnis sendi þrjár skáksveitir til keppni í úrvalsdeild, 2. deild og 4. deild. Liðsmenn eru flestir uppaldir Grafarvogsbúar ungir að árum sem halda tryggð við Fjölni og formann skákdeildar.

Allt frá stofnun hefur A sveit Fjölnis staðið sig vel í 1. deild og náði í vor  „eftirsóknarverðu“ sæti í nýrri úrvalsdeild.

Skáksveit Fjölnis situr í 3. sæti deildarinnar eftir fyrri hluta mótsins og una liðsmenn því ágætlega og spá í rólegheitum í framheldið. Eins og alltaf töpuðust skákir og viðureignir sem lítið vantaði upp á að næðu stigi eða stigum en aðrar sem tóku viðsnúning okkur í hag í lokin.

Hæst stendur upp úr einstakur árangur Héðins Steingrímssonar á 1. borði sem náði úrslitum skv. 2737 ELÓ stigum. Íslensku landsliðsmennirnir fengu heldur slæma útreið á 1. borði að þessu sinni gegn sveit Fjölnis. Héðinn teflir aldrei betur en sem liðsmaður Fjölnis í Deildó með 100% árangur í vor og 80% árangur nú í fyrri hlutanum. Miðað við frammistöðuna í Deildó og á Reykjavík open í ágúst þá virðist Héðinn sterkasti skákmaður landsins um þessar mundir.

Á öðru borði tefldi viðkunnalegi eistneski stórmeistarinn Kaido Kulaots og náði sigrum eða jöfnu í öllum sínum skákum. Kaido kann vel við sig á Íslandi og hefur reynst Fjölnismönnum góður liðsstyrkur í gegnum árin. Leiðtoginn okkar Sigurbjörn J. Björnsson átti afar sterka setu, tefldi langar baráttuskákir sem skiptu máli um úrslit hverrar umferðar. Að venju þykir eftirsóknarvert að tefla fyrir A sveit Fjölnis og lítið um „innáskiptingar“.

B sveit Fjölnis er í þægilegri stöðu í 2. deild og stefnir á að halda sæti í deildinni sem er afar jöfn og spennandi. Sveinbjörn Jónsson og ungmenni skipa sterka og áhugaverða sveit karla og kvenna.

C sveitin er sveit „nýliðanna“ , grunnskólabarna sem voru að tefla sínar fyrstu keppnisskákir. Skák er skemmtileg.

Fjölnismenn eru ánægðir með talfmennskuna og árangur á mótinu.

Skákdeildin er ánægð með velheppnaða framkvæmd og utanumhald í Egilshöll í frábæru samstarfi við skrifstofu Fjölnis. Við erum stolt af Egilshöll þessari íþrótta-og  samfélagsmiðstöð sem mannvirkið er.

Takk fyrir samstarfið Gunnar Björnsson og stjórn SÍ. Takk fyrir komuna þið öll sem teflduð fyrir ykkar félög, nánast allt litróf landsmanna frá 8 – 88 ára.

Helgi Árnason

- Auglýsing -