Sú staðreynd að Magnús Carlsen hefur látið í veðri vaka að hann muni ekki verja heimsmeistaratitil sinn nema þá helst ef Íraninn Alireza Firouzja beri sigur úr býtum í næsta áskorendamóti setur þá keppni í sérkennilega stöðu og minnir helst á áskorendakeppnina 1974 sem fram fór með einvígjafyrirkomulagi. Um mitt ár 1974 stóðu eftir Anatolí Karpov og Viktor Kortsnoj og lokaeinvígi þeirra fram undan í Moskvu. Þá var alls ekki útilokað að sigurvegarinn yrði síðar krýndur heimsmeistari sem og varð raunin. Á þingi FIDE um sumarið lá fyrir kröfugerð Fischers um keppnisfyrirkomulag HM-einvígisins sem var á dagskrá 1975 og í framhaldi af synjun FIDE afsalaði hann sér FIDE-heimsmeistaratitlinum. Þreifingar um ásættanlega niðurstöðu héldu samt áfram en strönduðu endanlega á aukaþingi FIDE í mars 1975. Karpov var svo krýndur heimsmeistari um vorið.

Áskorendamótið hefst í Bilbao á Spáni 17. júní nk. Keppendur eru þessir: Nepomniachtchi, Radjabov, Duda, Firouzja, Caruana, Nakamura, Rapport og Ding Liren. Hverjar eru þá sigurhorfur hins 18 ára gamla Írana? Góðar, en keppnin verður hörð. Ég sá þennan unga mann fyrst að tafli á Ólympíumóti 16 ára og yngri í Konya í Tyrklandi haustið 2018. Einhver benti mér á að eftir sjö umferðir var hann búinn að vinna allar skákir sínar. Voru andstæðingar hans samt margir af bestu ungu skákmönnum heims. Þarna var eitthvað að gerast. Lítum á eina skák hans frá þessu móti:

Ól. 16 ára og yngri; Konya 2018:

Alireza Firouzja – David Brodsky

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3.Bb5 a6 4.Ba4 Rf6 5. 0-0 Rxe4 6. d4 b5 7.Bb3 d5 8. dxe5 Be6 9. c3 Bc5 10. Dd3

Sjá stöðumynd 1

Tal tefldi svona stundum. Leikurinn virðist hafa komið andstæðingi Firouzja á óvart.

10. … Re7 11. Rd4 Bb6?

Ónákvæmt. Best er 11. … Bxd4 því að 12. cxd4 er svarað með 12. … c5 og eftir 12. Dxd4 hrókerar svartur.

12.Bc2 Rg6

Aftur ónákvæmni. Best var 12. … Bd7.

13. De2! O-O 14. f3 Rc5 15. f4 Bd7 16. f5

Eftir framrás þessa peðs verður fátt um varnir.

16. … Re7 17.Bg5 De8 18. f6 Rg6 19. fxg7 Kxg7 20. Bf6+ Kg8

21. Dh5! Re6 22. Dh6 Bc8 23. Hf3

– og svartur gafst upp.

Landslið Íslands fyrir Ólympíumótið í Chennai á Indlandi valið

Ingvar Þ. Jóhannsson, landsliðseinvaldur SÍ, hefur nú valið lið Íslands í opnum flokki og kvennaflokki Ólympíuskákmótsins í Chennai í Indlandi sem hefst 28. júlí nk. Hann hefur ákveðið að víkja til hliðar viðmiðum elo-stiga í vali sínu í opna flokknum en fjórir liðtækir skákmenn, sem ýmist eru með meira en 2.500 elo-stig eða þar í kring, eru ekki í hópnum. Íslenska liðið í opna flokknum er þannig skipað: Hjörvar Steinn Grétarsson (2.552 elo), Hannes Hlífar Stefánsson (2.534 elo), Vignir Vatnar Stefánsson (2.496 elo), Helgi Áss Grétarsson (2.472 elo) og Guðmundur Kjartansson (2.452 elo). Margeir Pétursson verður liðsstjóri.

Íslenska liðið í kvennaflokki: Lenka Ptacnikova, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Lisseth Acevedo Mendez og Tinna Kristín Finnbogadóttir. Liðsstjóri: Ingvar Þ. Jóhannesson.

Um þetta val og einkum þá staðreynd að Héðinn Steingrímsson (2.534 elo), sem er í 2.-3. sæti meðal íslenskra skákmanna á stigalista FIDE, er ekki í hópnum hafa staðið nokkrar deilur undanfarið.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 14. maí 2022.

- Auglýsing -