Norðurlandameistarar Skáksveit Lindaskóla úr Kópavogi vann yngri flokk Norðurlandamóts grunnskóla en keppnin fór fram á Laugarvatni um síðustu helgi. Piltarnir hlutu 18½ vinning af 20 mögulegum sem er mótsmet. Frá vinstri: Arnar Milutin Heiðarsson liðsstjóri, Engilbert Viðar Eyþórsson, Örvar Hólm Brynjarsson, Sigurður Páll Guðnýjarson og Birkir Hallmundarson. — Ljósmynd/SÍ

Þröstur Þórhallsson var drjúgur fyrir íslenska liðið sem hreppti bronsverðlaun á HM öldungasveita 50 ára og eldri í Struga í Norður-Makedóníu á dögunum. Þröstur, sem tók sæti 1. varamanns, tefldi átta skákir og hlaut sex vinninga. Rétt eins og á Ródos fyrir fjórum árum vann hann til borðaverðlauna. Þar fékk hann silfur en nú náði hann bestum árangri varamanns og hlaut því gullmedalíuna. Samanlagður árangur hans í þessum tveimur mótum er 11½ vinningur af 15 mögulegum.

Fyrir lokasprettinn í Struga átti íslenska liðið möguleika á að vinna mótið. Í næstsíðustu umferð tefldum við gegn Ítölum, sem höfðu skotist upp við hlið Bandaríkjamanna með 3:1-sigri í innbyrðis uppgjöri. Það var því mikið undir þegar Ítalíuslagurinn hófst og Þröstur reið á vaðið og kom okkur yfir. Óþarft tap á 2. borði gerði það að verkum að Ítalir náðu að jafna metin og viðureignin í lokaumferðinni snerist því um silfur eða brons:

HM öldungsveita, Struga 2023; 8. umferð:

Fabrizio Bellia – Þröstur Þórhallsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 d6 6. Bg5 e6 7. Dd2 a6 8. 0-0-0 Bd7 9. Rxc6 Bxc6 10. f3 Be7 11. Kb1 Dc7 12. h4 0-0-0 13. h5?

Það er eins og Bellia hafi ákveðið að þeyta peðum sínum fram án tillits til stöðu svarta kóngsins. En leikurinn var byggður á yfirsjón. Betra var 13. Re2.

13. … d5!

Einfalt og sterkt og hvítur hefur upphaflega ætlað að svara þessu með 14. e5 með hugmyndinni 14. … Dxe5 15. Bf4 Df5 16. g4 o.s.frv. En svartur leikur hins vegar 14. … d4! því að eftir 15. exf6 kemur 15. … dxc3! og svartur á unnið tafl.

14. Bd3 dxe4 15. fxe4 h6 16. Bh4 Bd6 17. De2 Be5

Byrjun hvíts misheppnast hrapallega. Biskupinn á e5 er geysiöflugur og hvítur hefur ekkert mótspil.

18. Be1 Hd4 19. Bd2 Hhd8 20. Hhe1 H4d6 21. Df3 Be8!

Með þessum leik hrindir Þröstur áætlun sinn af stað. Biskupinn víkur um stundarsakir fyrir hrókunum sem koma sér fyrir á „bersvæðinu“ fyrir framan viðkvæma kóngsstöðu hvíts.

22. Ka1 Hb6 23. Hb1 Kb8 24. Rd1 Hc6 25. Re3 Hd4 26. Hbd1?

Gefur kost á laglegri leikfléttu en staðan var auðvitað slæm.

26. … Hxd3! 27. cxd3

27. … Bxb2+! 28. Kb1

Hann mátti ekki taka biskupinn, 28. Kxb2 Hb6+ og mátar, t.d. 29. Ka3 Dd6 mát eða 29. Ka1 De5+ o.s.frv.

28. … Hb6 29. Rc4 Be5+ 30. Kc1 Bb5 31. Ba5 Bxc4 32. Bxb6 Dxb6 33. He2 Bb5 34. Df2 Bd4 35. Dg3+ Ka7 36. Df3 Ba4 37. Hdd2 Dc5+ 38. Hc2 Da3+ 39. Kd1

Eða 39. Kb1 Bxc2+ 40. Hxc2 Db4+ 41. Kc1 De1+ 42. Dd1 Be3+ og vinnur.

39. … Dxa2 40. Hed2 Db1+

– og hvítur gafst upp.

Bárður efstur á Haustmóti TR

Litlu munaði að Bárður Örn Birkisson ynni Haustmót TR með fullu húsi en í síðustu umferðinni tapaði hann fyrir Stefáni Bergssyni sem varð í 2. sæti ásamt Hilmi Frey Heimissyni, báðir með sjö vinninga. Bárður hlaut átta vinninga af níu. Enginn efstu manna er félagsmaður í TR og skákmeistari TR varð hinn ungi Ingvar Wu Skarphéðinsson sem varð í 5. sæti.

Á dögunum lauk í Mexíkóborg HM unglinga 20 ára og yngri. Vignir Vatnar Stefánsson hlaut 7½ vinning af 11 mögulegum og varð í 13. sæti af 143 keppendum. Alexander Domalchuk-Jónasson hlaut 6½ vinning og varð í 42. sæti. Heimsmeistari unglinga 2023 varð Frakkinn Marc’Andria Maurizzi, hlaut 8½ vinning.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 7. október 2023

- Auglýsing -