Æskan að tafli Íslandsmót barna og unglinga, einstaklingskeppni og sveitakeppni stóð yfir tvo daga í Miðgarði, Garðabæ, um síðustu helgi og fékk mikla þátttöku. TG sá um framkvæmdina en Heimkaup var styrktaraðili mótsins. — Ljósmynd/Hermann Björgvin Haraldsson.

Þar sem hann var næststigahæsti keppandi mótsins hlaut Hannes Hlífar Stefánsson alltaf að eiga möguleika á því að blanda sér í baráttuna um sigur á heimsmeistaramóti öldunga, 50 ára og eldri í Palermo á Ítalíu sem lauk um síðustu helgi. Og það gerði hann svo sannarlega því að eftir tiltölulega auðveldan sigur í níundu umferð komst hann í efsta sætið ásamt Tyrkjanum Atalik og þeir mættust í næstsíðustu umferð. Ekki er hægt að útiloka að hin langa og strembna skák við Michael Adams í áttundu umferð hafi setið í okkar manni. Þá var staða Hannesar fremur óhagstæð kæmi til stigaútreiknings og því varð hann eiginlega að vinna Tyrkjann. Adams var aðeins ½ vinningi á eftir og til alls líklegur. Skák Hannesar gegn Atalik var í jafnvægi lengst af og á einu augnabliki gat Hannes tryggt sér mun betri stöðu en missti þráðinn og tapaði. Adams komst upp við hlið Atalik eftir sigur í lokaumferðinni en var hærri á mótsstigum og því heimsmeistari öldunga 50 ára og eldri. Landi hans, John Nunn fór eins að í 65 ára flokknum en hann varð jafn Slóvakanum Lubomir Ftacnik.

Nakamura ávann sér keppnisrétt í áskorendamótinu

Á Opna mótinu í Katar á dögunum töldu menn sig sjá merki þess að „gömlu verðirnir“ kappar á borð við Nakamura, Caruana og jafnvel Magnús Carlsen sem átti þar versta mót sitt í háa herrans tíð, væru kannski farnir að gefa eftir. Skákmenn frá Indlandi og Úsbekistan áttu sviðið og á Opna mótinu á Mön sem lauk um síðustu helgi varð að sumu leyti áframhald á þeirri þróun; Indverjinn Santosh Vidit sigraði glæsilega, hlaut 8½ vinning af 11 og vann sér rétt til þáttttöku í áskorendamótinu. En Nakamura gerði sér lítið fyrir og varð í 2. sæti með 8 vinninga og náði hinu sætinu sem í boði sem var vel af sér vikið í harðri keppni 114 keppenda. Fyrir hafa Nepomniachtchi, Caruana, Praggnanandhaa og sennilega Abasov frá Aserbaídsjan unnið þennan rétt sem þó er háð því að Magnús Carlsen verði ekki með.

Keppnisharka Nakamura kom vel fram í næstsíðustu umferð er hann mætti gömlum kunningja:

FIDE Grand Swiss 2023; 10. umferð:

Hikaru Nakamura – Fabiano Caruana

Skoskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rf6 3. Rc3 Rc6 4. d4 exd4 5. Rxd4 Bb4 6. Rxc6 bxc6 7. Bd3 d5 8. exd5 0-0 9. O-O cxd5 10. h3 Be6 11. Df3

Leið sem gafst vel fyrir nokkrum árum.

11. … c5 12. Hd1 Bxc3 13. bxc3 Da5 14. Bg5 Re4 15. Bxe4 dxe4 16. Dg3 Kh8 17. a4 Hfe8 18. Hd6!

Byrjunin virðist ekki gefa Nakamura mikið en heldur svörtu drottningunni frá og það eru möguleikar á kóngsvæng.

18. … h6?

Óþarfa veiking. Mun betra var að leika 18. … f6.

19. Bf4 He7 20. De3 Hc8?

Auðvitað sá hann fórnina á h6 en reiknaði ekki dæmið til enda.

 

 

21. Bxh6! f6

Eftir 21. … gxh6 kemur 22. Dxh6+ Kg8 23. Dg5+ Kf8 24. Df6! He8 25. Hxe6! Hxe6 26. Dh8+ Ke7 27. Dxc8 Dxc3 28. Hd1! og vinnur.

22. Dxe4 Dxc3 23. Had1 Hce8 24. Hd8 Bg8 25. Dh4 Dxc2 26. H1d3 Bh7 27. H3d7 g5 28. Dg3 Db1 29. Kh2 Df5 30. Hxe7 Hxd8 31. Dc7 Df4+

Ekki 31. … Ha8 32. He8+ og mátar á g7.

32. Dxf4 gxf4 33. Bg7+ Kg8 34. Bxf6 Bb1 35. Hg7+ Kf8

36. Bxd8!

Einfaldast. Sameinuð frípeð hvíts á kóngsvæng gera út um taflið.

36. … Kxg7 37. Bg5 f3 38. g4 c4 39. Kg3 Be4 40. Bd2

– og Caruana gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 11. nóvember 2023

- Auglýsing -