Bárður Örn Birkisson er efstur á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur að loknum þremur umferðum. Þriðja umferðin fór fram í gær, sunnudag og var hart barist í öllum flokkum.

Kíkjum á gang mála í 3. umferðinni

A-flokkur

Bárðru er orðinn mjög traustur og sjóaður skákmaður og fer vel af stað í A-flokknum. Hann missti þó sína fyrstu punkta niður í 3. umferðinni en TR-ingurinn ungi Benedikt Þórisson hélt velli. Bárður fékk örlítið betra en Benedikt stýrði skákinni í jafnt hróskendatafl þar sem hvorugur get reynt neitt.

Torfi og Jóhann skildu líka jafnir í baráttuskák.

Sigurbjörn tefldi fína skák með svörtu gegn Adam og vann sína aðra skák í röð.

Loks náði Björn Hólm Birkisson að kreysta fram sigur gegn Kjartani Maack sem hlýtur að naga sig í handarbökin enda tapaðist sama skákin eiginlega þrisvar og jafnteflið í seilingarfjarlægð alveg við blálokin.

Bárður er efstur með 2,5 vinning en þrír skákmenn hafa 2 vinninga í humátt á eftir honum.

B-flokkur

Ein skák var í beinni í B-flokki sem endranær en þar sýndi Josef Omarsson klærnar en hann fer einstaklega vel af stað í flokknum og hefur unnið allar sínar skákir. Josef þurfti þó að hafa töluvert fyrir sigrinum og Kristinn var kominn með fínt miðtafl eftir gambít-taflmennsku í byrjuninni. Það var ekki fyrr en Kristinn lék illa af sér alveg í lokin sem að Josef náði að knésetja hann.

Jósef er efstur með 3 vinninga en að öðru leiti er flokkurinn mjög jafn. Erfitt er að lesa í stöðuna þar sm keppendur hafa teflt mismikinn fjölda skáka þar sem Guðni Stefán Pétursson þurfti því miður að draga sig úr leik eftir fyrstu umferð og því er flokkurinn 9 manna flokkur.

Opinn flokkur

Óttar Örn og Örvar Hólm fara mikinn í opna flokknum, unnu sínar skákir og hafa í raun unnið allar skákir sínar. Þeir mætast í 4. umferð.

- Auglýsing -