Uppgjöf Gukesh réttir fram höndina til merkis um að hann gefi fyrstu skákina í heimsmeistaraeinvíginu. — Ljósmynd/Maria Emelianova

Kínverski heimsmeistarinn Ding Liren hefur ekki staðið undir nafnbótinni frá því að hann vann Jan Nepomniachchi í einvígi þeirra í fyrra. Um það er enginn ágreiningur en skýringin kann að vera sú að hann hefur verið að glíma við slæm eftirköst covid-19. Það var allt að því sorglegt að fylgjast með honum á Ólympíumótinu í Búdapest á dögunum, en þar vann hann ekki eina einustu skák.

En nú er hann mættur til Singapúr til að verja titil sinn. Og hvað gerist? Í fyrstu skákinni náði hann loksins að tefla eins og sönnum heimsmeistara sæmir. Gukesh var þó fljótur að ná vopnum sínum. Áreynslulaust jafntefli í 2. skák og síðan vann hann þá þriðju eftir mistök Ding Liren snemma tafls. Staðan þegar þetta er ritað er því jöfn, 1½:1½. Fjórða skákin var á dagskrá í gær en fyrirkomulag einvígisins gerir ráð fyrir þremur skákum á þremur dögum og síðan frídegi. Þeir fá 2 klst. hvor á fyrstu 40 leikina – án aukatíma. Eftir það og til loka skákar bætast við 30 mínútur að viðbættum 30 sekúndum fyrir hvern leik. Vegna hins mikla fjölda jafntefla í HM-einvígjum Magnúsar Carlsen fá keppendur greiddan sérstakan bónus fyrir hvern sigur en verðlaunaféð að öðru leyti nemur 2,5 milljónum bandaríkjadala eða tæplega 345 milljónum íslenskra króna.

Í fyrstu skákinni fylgdi Gukesh leið sem Anand hafði áður beitt en kom ekki að tómum kofunum hjá Ding Liren sem virðist vel undirbúinn, meðvitaður um þau miklu áhrif sem Anand hefur haft á landa sína. Lítum á glæsilegan sigur Ding Liren:

HM einvígi í Singapúr 2024; 1. einvígisskák:

Dommaraju Gukesh – Ding Liren

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Rf6 4. e5 Rfd7 5. f4 c5 6. Rce2

Fremur sjaldséður leikur sem stundum sást í skákum Anands.

6. … Rc6 7. c3 a5 8. Rf3 a4 9. Be3 Be7 10. g4 Da5 11. Bg2 a3 12. b3 cxd4 13. b4 Dc7 14. Rexd4 Rb6 15. O-O Rc4 16. Bf2 Bd7 17. De2 Rxd4 18. Rxd4 Rb2!

„Nýr reitur“ í frönsku vörninni! Drottningin svarta hyggst ryðjast inn á c4 og síðan jafnvel til d3. Gukesh gáir ekki að því hversu útsmoginn leikurinn er.

19. De3 Hc8 20. Hac1?

Það var alls ekki heppilegt að valda c3-peðið með þessum eðlilega leik. Eftir 20. Be1 h5 gæti staðan lokast alveg eftir 21. g5 því að 21. h3 má svara með 21. … hxg4 22. hxg4 Rc4 og síðan g7-g5 og svartur nær mun betri stöðu.

20. … Dc4! 21. f5 Dd3 22. De1 Bg5!

Þessi biskupsleikur gerir í raun út um um taflið.

23. Hc2 Hc4!

Hótar 24. … Hxd4.

24. h4 Bf4 25. Db1 Hxc3 26. Hxc3 Dxc3 27. fxe6 fxe6 28. Re2 Dxe5 29. Rxf4 Dxf4 30. Dc2 Dc4 31. Dd2 O-O 32. Bd4 Rd3 33. De3

Kannski batt hann vonir sínar við 33. Bxg7 sem strandar á 33. … Hxf1+ 34. Bxf1 Dxg4+ 35. Bg2 Dxg7 36. Dxd3 Da1+ og 37. … Dxa2.

33. … Hxf1+ 34. Bxf1 e5!

35. Bxe5

Eða 35. Bxd3 Dxd4 36. Dxd4 exd4 37. g5 Kf7 og vinnur því að svartur lumar á biskupstilfærslunni Bd7-g4-h5-g6.

35. … Dxg4+ 36. Bg2 Bf5 37. Bg3 Be4 38. Kh2 h6 39. Bh3 Dd1 40. Bd6 Dc2+ 41. Kg3 Dxa2 42. Be6+

 

Síðasta vonin fólst í þessum leik …

42. … Kh8!

… en gildran var of einföld, 42. … Kh7?? hefði verið svarað með 43. Dxe4+! dxe4 44. Bxa2 og hvítur sleppur. Gukesh gafst upp. Hann getur svo sem reynt 43. Dxe4 en þá kemur millileikurinn 43. … Df2+! og síðan fellur drottningin.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 30. nóvember 2024

 

- Auglýsing -