Verðlaunhafar Helgi Áss Gétarsson sigraði á Íslandsmótinu í hraðskák – Friðriks-mótinu svonefnda – sem fram fór sl. sunnudag í húsakynnum Landsbankans. Hér er Helgi í hópi annarra verðlaunahafa. Fremri röð f.v.: Birkir Ísak Jóhannsson, Davíð Kolka. Önnur röð f.v.: Stephan Briem, Örvar Hólm Brynjarsson og Lenka Ptacnikova. Efsta röð f.v.: Hilmir Freyr Heimisson, Helgi Áss og Gunnar Björnsson forseti SÍ. — Ljósmynd/Heimasíða Íslandsmótsins

Að loknum níu skákum af þeim fjórtán sem tefldar verða með hefðbundnum umhugsunartíma í heimsmeistaraeinvígi Dings Liren og Dommarajus Gukesh sem nú stendur yfir í Singapúr er staðan jöfn, 4½:4½, og spennandi lokakafli fram undan. Það var frídagur í gær en nú taka við þrjár skákir án hlés.

Margt virðist benda til þess að Indverjinn ungi verði sterkari á lokasprettinum. En þá ályktun mátti svo sem líka draga þegar Ding Liren tefldi við Jan Nepomniachtchi í fyrra – að Rússinn hlyti að hafa þetta! Í síðustu skákum hafa báðir misst af góðum færum og Ding Liren getur nagað sig í handarbökin eftir tapið í þriðju skákinni sem hann tefldi óaðfinnanlega allt þar til þessi staða kom upp:

HM-einvígið, 3. einvígisskák:

Dommarju Gukesh – Ding Liren

Svartur á sallafína stöðu rati eðlilegasti leikurinn, 18. … Be7!, á borðið. Þá dugar ekki 19. e4 vegna 19. … Re6 og eftir 19. Hc1 Bf5 er biskupinn laus frá c2-reitnum. En Ding Liren lék …

18. … Hh5?? … sem Gukesh svaraði með 19. e4! Nú er biskupinn á c2 í herkví og féll eftir 19. … dxe4 20. fxe4 Re6 21. Hc1! Rxd4 22. Bf2! Bg7 23. Re2! Svartur fékk að vísu tvö peð en ekkert mótspil og góð tæknileg úrvinnsla skilaði vinningnum í land eftir 37 leiki. Þar með hafði Gukesh jafnað metin.

Síðan þetta gerðist hafa þeir teflt sex skákir sem öllum hefur lokið með jafntefli. Einbeittur sigurvilji Gukesh hefur skinið í gegn í hverri skák. Hann hefur oftar en einu sinni hafnað því að þráleika til jafnteflis, jafnvel í lakari stöðu. Sem rifjar upp skilgreiningu Jans Timman á besta skákmanni sinnar kynslóðar, Anatolí Karpov; að það væri einn helsti styrkleiki Karpovs hvernig honum tækist að halda vinningsfærum þrátt fyrir að staða hans væri lakari. Þetta taldi Timman höfuðdyggð og bætti við sögu af Bobby Fischer sem hann setti í sama flokk og var frá millisvæðamótinu í Palma 1970 en þar hafnaði okkar maður því að þráleika í vondri stöðu gegn Milan Matulovic.

Gukesh átti unnið tafl í sjöundu og áttundu skák einvígisins:

HM-einvígið, 7. einvígisskák:

Dommarju Gukesh – Ding Liren

„Vélarnar“ kveða upp úr með það að eftir rólegan og ábyrgan leik, 30. Be3!, verði stöðu svarts ekki bjargað, t.d. 30. … Dxd2 31. Bxd2 Re8 32. Be3! og a7-peðið fellur fyrr eða síðar. Hér er vandi svarts sá að riddarinn á f8 stendur illa. Gukesh lék hins vegar 30. Df4 og eftir 30. … Dxc2 31. Bxf6 Df5 missti hann af 32. Bg5! og enn með vinningsstöðu. Hann lék hins vegar 32. Dxf5? gxf5 33. Bxg7 Kxg7 34. Hc5 og þótt staða svarts sé erfið varðist Ding Liren vel og hélt jöfnu eftir 72 leiki.

Aftur byggði Gukesh upp vinningsstöðu í næstu skák:

HM-einvígið, 7. einvígisskák:

Ding Liren – Dommarju Gukesh

Eftir miklar sviptingar og óvenjulega byrjun er svartur peði yfir og með tvö samstæð frípeð. Einfaldast er 27. … Bd5! t.d. 28. Dc2 Hc8 og í fyllingu tímans skríða frípeðin fram. Það er erfitt að sjá hvernig hvítur getur varið þá stöðu. Gukesh lék hins vegar 27. … Bb3? og virtist ekki hafa áttað sig á hinum útsmogna leik, 28. De1! Eftir 28. … Be6 29. Df2! var hann lentur í erfiðri leppun. Gukesh hélt þó áfram að leita vinningsfæra en jafntefli varð niðurstaðan eftir 51 leik.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 7. desember 2024

 

- Auglýsing -