
Indverjinn Dommaraju Gukesh er nýr heimsmeistari í skák eftir sigur í fjórtándu og síðustu einvígisskákinni við Ding Liren sem tefld var í Singapúr á fimmtudaginn. Þar með lauk stuttum og lítt sannfærandi heimsmeistaraferli Dings Lirens. Hann lék gróflega af sér í þessari stöðu í lokaskákinni:
HM-einvígið í Singapúr 2024; 14. skák:
Ding Liren – Dommaraju Gukesh
Ding Liren hafði misst peð eftir linkulega taflmennsku en virtist þó aldrei í neinni hættu. Staða var lengi vel steindautt jafntefli en Gukesh hafði þó verið að teygja lopann þótt hann gæti varla gert sér neinar vonir um sigur. Flestir eðlilegir leikir hvíts duga hér til að halda jafnvægi. Biskupinn hefði að vísu mátt halda sig frá a8-reitunum og þá eru hætturnar líka upptaldar. Ding Liren var ekki í tímahraki en lék nú …
55. Hf2?? Hxf2! 56. Kxf2 Bd5! 57. Bxd5 Kxd5 58. Ke3 Ke5!
Hér er komið fram einfalt dæmi um leikþröng. Ætti svartur leik væri staðan jafntefli en nú bregður svo við að allir kóngsleikir hvíts leiða til taps, t.d. 59. Kd3 f4 o.s.frv. eða 59. Kf2 Kd4! o.s.frv. Kannski hefur uppsöfnuð þreyta og taugaspenna valdið því að Ding Liren hafi ekki séð fyrir að svartur ætti leik. Hann gafst upp.
Með sigrinum hafði Gukesh hlotið 7½ vinning gegn 6½. Jafntefli hefði þýtt að þeir hefðu orðið að tefla til þrautar í skákum með styttri umhugsunartíma. Að tímabilinu 1993-2005 slepptu, þegar tveir heimsmeistaratitlar voru í „umferð“, er því hinn 18 ára gamli Dommaraju Gukesh orðinn 18 heimsmeistarinn og sá langyngsti í skáksögunni. Garrí Kasparov skipaði áður þann sess, en hann vann titilinn af Anatolí Karpov 22 ára í Moskvu haustið 1985. Magnús Carlsen var einnig 22 ára en nokkrum mánuðum eldri er hann vann heimsmeistaraeinvígið við Anand í Chennai árið 2013.
Eftir óvæntan en glæsilegan sigur í áskorendamótinu fyrr á þessu ári hefur Gukesh verið fremstur í flokki kornungra indverskra skákmanna sem unnu yfirburðasigur á Ólympíumótinu í Búdapest í september sl. Praggnanandhaa, Vidit, Erigaisi, Sarin og Gukesh eru í raun afsprengi afreksstefnu sem ýtir undir atvinnumennsku barna. Það eru ekki mörg ár síðan síðan menn tóku eftir mikilli fjölgun indverskra skákmanna sem virtust halda frá einu móti til annars. Reykjavíkurskákmótin hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Gukesh var meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu 2019, þá 12 ára gamall, og aftur 2022. Lengi vel var talið að landi hans, Praggnanandhaa, væri líklegri til að hrifsa heimsmeistaratitilinn, en sá var farinn að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi 10 ára gamall.
Ding Liren vann fyrstu skák einvígisins en tapaði þeirri þriðju klaufalega. Síðan gerðu þeir sjö jafntefli. Gukesh komst svo yfir eftir ótrúlega yfirsjón:
HM-einvígið í Singapúr 2024; 11. skák:
Dommaraju Gukesh – Ding Liren
Svartur var undir talsverðri pressu og varð hér að leika 25. … Rb4 með von um tafljöfnun. En hann valdi …
28. … Dc8??
Enn einn fingurbrjóturinn. Svarið lét ekki á sér standa …
29. Dxc6!
– og svartur gafst upp.
Ding Liren tefldi ljómandi vel í næstu skák og jafnaði metin. Í þeirri þrettándu nýtti Gukesh sér ekki góð færi en örlagadísirnar voru á hans bandi á fimmtudaginn.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 14. desember 2024