Vignir Vatnar vann Héðin í æsilegri skák

Sjötta umferð Íslandsmótsins í skák, minningarmóts um Hemma Gunn, var æsispennandi og mest var spennan í skákum, skákmeistara Reykjavíkur, Stefáns Bergssonar (2186) og Þrastar Þórhallssonar (2416) annars vegar og skák Héðins Steingrímssonar (2583) og Vignis Vatnar Stefánssonar (2284) hins vegar. Spennan var hins vegar munni í skák Helga Áss Grétarssonar og Hannesar Hlífars Stefánssonar (2541) sem gerðu tilþrifalítið jafntefli á fyrsta borði.

Þröstur vann Stefán eftir að hafa lengi verið í köðlunum. Héðinn virtist vera á góðri leið með að vinna Vigni og fórnaði manni fyrir vænlega sókn. Vignir sýndi hins vegar gríðarlega útsjónarsemi í vörninni og bætti stöðuna jafnt og þétt og vann virkilega góðan sigur á stigahæsta skákmanni landsins.

Úrslit sjöttu umferðar má finna á Chess-Results.

Þröstur, Hannes og Helgi Áss eru efstir með 5 vinninga. Jóhann Ingvason (2164), Lenka Ptácníková (2230), sem vann afar góðan sigur á bandaríska alþjóðlega meistaranum Justin Sarkar (2297) eru skammt undan með 4½ vinning.  Lenka er langefst á Íslandsmóti kvenna og Vignir er efstur á Unglingameistaramóti Íslands en bæði mótin eru hluti af Íslandsmótinu.

Stöðu mótsins má finna á Chess-Results

Sjöunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 16:30. Þá mætast Hannes og Þröstur. Helgi Áss mætir stórmeistarabananum Vigni Vatnar. Lenka teflir við Jóhann Ingvason.

Röðun sjöundu umferðar má finna á Chess-Results.

Röð efstu manna í verðlaunaflokkum:

Íslandsmót kvenna

 1. Lenka Ptácníková 4½ v.
 2. Guðlaug Þorsteinsdóttir 3½ v.
 3. Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir 2½ v.

Unglingameistaramót Íslands (u22)

 1. Vignir Vatnar Stefánsson 4½ v.
 2. Gauti Páll Jónsson 4 v.
 3. Benedikt Briem 3½ v.
 4. Birkir Ísak Jóhannsson 3½ v.

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (+2000)

 1. Jóhann Ingvason (+197)
 2. Helgi Áss Grétarsson (+154)
 3. Lenka Ptácníková (+135)
 4. Gauti Páll Jónsson (+113)

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (-2000)

 1. Birkir Ísak Jóhannsson (+382)
 2. Hörður Jónasson (+330)
 3. Arnar Heiðarsson (+309)
 4. Benedikt Briem (+291)
 5. Þórður Guðmundsson (+283)
 6. Benedikt Þórisson (+223)

Allar skákir morgundagsins, nema ein verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum (öppunum) Follow Chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni og tilvalið að skoða minningarvegginn um Hemma Gunn.

- Auglýsing -