Aron Þór Mai tapaði fyrir goðsögninni Jan Timman. Mynd: Oliver Mai

Xtracon-mótið sem stendur yfir þessa dagana á Helsingjaeyri í Danmörku er að mörgu leyti byggt upp á svipaðan hátt og síðustu Reykjavíkurskákmót. Þátttakendur eru um 400 talsins, þar af nokkrir nafntogaðir stórmeistarar, og er mikill stigamunur á keppendum. Það er einmitt í viðureignum þar sem stigabil er mikið að gengi manna ræðst; að vinna stigalægri andstæðinga sína er krafa dagsins og ekki verður annað sagt en að sterkasta fulltrúa okkar, Jóhanni Hjartarsyni, hafi gengið vel í því verkefni. Fyrir sjöundu umferð, sem fram fór á fimmtudag, hafði hann unnið fimm skákir gegn stigalægri andstæðingum en tapað fyrir einum stigahærri og í þeirri sjöundu átti hann góða stöðu lengst af gegn rússneska stórmeistaranum Vitiugov, en lagði út í mannsfórn sem ekki gekk upp þó hann hafi á ákveðnum tímapunkti eftir fórnina verið búinn að snúa taflinu sér í vil. Jóhann hefur gefið kost á sér í lið Íslands sem teflir á Ólympíumótinu í Batumi í Georgíu í september nk.

Aðrir íslenskir skákmenn sem tefla þarna eru Hilmir Freyr Heimisson sem var eftir sjöundu umferð með 4 ½ vinning, Aron Thor Mai og Örn Leó Jóhannsson báðir með 4 vinninga og einnig Alexander Oliver Mai, Jóhann Ingvason og Hafsteinn Ágústsson allir með 3 ½ v. og Ólafur Gísli Jónsson með 2 ½ vinning.

Bræðurnir Aron Thor og Alexander Mai hafa báðir teflt við Jan Timman og sá fyrrnefndi var með unnið tafl gegn Hollendingnum á löngum kafla skákar þeirra í 6. umferð. Alexander Oliver tefldi í 1. umferð við sigurvegarann frá því í fyrra, Baadur Jobava. Hilmir Freyr Heimisson átti unnið tafl gegn búlgarska stórmeistaranum Grigorov í 7. umferð en varð að sætta sig við jafntefli.

Norðmennirnir Simen Agdestein og Jon Ludwig Hammer voru efstir með 6 ½ vinning af sjö mögulegum en þeir mættust í 7. umferð og missti Simen unna stöðu niður í jafntefli. Tefldar verða tíu umferðir og lýkur mótinu á morgun.

Margar skemmtilegar skákir hafa verið tefldar á mótinu og baráttugleðin í öndvegi sem sést á fjölda jafntefla í skákum okkar manna en þau eru fimm talsins í 56 skákum! Lítum á gott handbragð Arons Thors Mai úr fimmtu umferð:

Xtracon cup 2018:

Matthias Unnenland (Noregi) – Aron Thor Mai

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. f4

Fjögurra peða árásin er eitt skemmtilegasta afbrigði kóngsindversku varnarinnar.

5. … c5 6. d5 O-O 7. Rf3 e6 8. Be2 exd5 9. cxd5 Rbd7 10. O-O He8 11. Rd2 c4!

Skemmtileg stunga sem Tal m.a. beitti á góðu skákári 1979 og best er að svara með 12. a4 eða 12. Kh1.

12. Bxc4?! Rc5 13. Df3 Bg4 14. Dg3 Rcxe4 15. Rcxe4 Rxe4 16. Rxe4

16. Dxg4 er svarað með 16. …. Db6+ 17. Kh1 Rf2+ 18. Hxf2 Dxf2 sem hótar 19. … He1+. Eftir t.d. 19. Df3 kemur 19. … He1+ 20. Rf1 Dxf3 21. gxf3 Hc8 og vinnur mann.

16. … Hxe4 17. Dd3 Db6+ 18. Kh1 Hae8

Nú hefur svartur alla þræði í hendi sér.

19. Db3 Da5 20. h3 Hxc4 21. hxg4 Hce4 22. Hd1 He2 23. a3 H8e4 24. Kh2 Bd4 25. Dxb7 Dd8 26. g5 h6 27. Da6 Bb6 28. Bd2 hxg5 29. Hac1 Bc5 30. fxg5

Hvítur gat enga björg sér veitt í þessari stöðu en nú gerir Aron út um taflið.

30. … Hxd2! 31. Hxd2 Hh4+ 32. Kg3 Dxg5+ 33. Kf3

– og hvítur gafst upp áður en Aron gat leikið 33. … De3 mát!

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 28. júlí 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -