Tafl Sergei Karjakin, mótherji Magnúsar Carlsen í einvíginu í New York 2016 lék fyrsta leikinn fyrir Magnús þegar ellefta skákin var tefld. — Ljósmynd/Chess.com

Það fór eins og margan hafði grunað; tólftu og síðustu einvígisskák Fabiano Caruana og Magnúsar Carlsen lauk með jafntefli í London gær eftir fremur tíðindalitla 31 leiks viðureign. Þar með liggja úrslitin fyrir í skákunum tólf sem voru tefldar með venjulegu umhugsunartíma sem var 100 mínútur á mann á fyrstu 40 leikina, síðan 50 mínútur á næstu 20 leiki og að lokum 15 mínútur til að ljúka taflinu en 30 sekúndur bætast við hvern allt frá byrjun með þessu kerfi.

Þessi mikli umhugsunartími og undirbúningur skákmeistaranna sem styðst við útreikninga afar öflugra forrita, sem eru knúin áfram með bestu fáanlegum tölvum, þykja taka bragðið af taflmennskunni. Hvað tilþrif varðar stenst þetta einvígi engan samanburð við það sem háð var í Reykjavík sumarið 1972 en það hefur talsvert verið í sviðljósinu í tengslum við Lundúnaslaginn vegna þjóðernis áskorandans, sem með sigri yrði fyrsti bandaríski heimsmeistarinn síðan Bobby Fischer vann titilinn í Reykjavík.

Norska þjóðin bíður í ofvæni

Á miðvikudaginn kl. 15 hefst baráttan aftur með fyrstu at-skákinni af fjórum og tímamörk 25 10. Verði jafnt, 2:2 tefla þeir tvær hraðskákir með tímamörkunum 5 3. Verði jafnt,1:1, er haldið áfram með sama hætti þar til úrslit ráðast en mest geta þeir teflt fimm slík einvígi en telja öruggt að úrslit fáist fyrr. En ef ekki þá ráðast úrslit í svokallaðri Armageddon-skák.

Magnús Carlsen er margfaldur heimsmeistarí at-skák og hraðskák er því mun sigurstranglegri. Aftur á móti er öruggt að baráttan verður geysilega spennandi og skemmtileg og taugar þandar til hins ýtrasta. Norska þjóðin bíður þessarar viðureignar eins og um úrslitaleik á HM í knattspyrnu væri að ræða. Hægt er að fylgjast með baráttunni á fjölmörgum vefsvæðum og má t.d. nefna Chessbomb.com, Chess24.com og ICC.

Skákin í gær gekk þannig fyrir sig:

12. skák:

Fabiano Caruana – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e5 6. Rdb5 d6 7. Rd5 Rxd5 8. exd5 Re7

Magnús lék 8….Rb8 í áttundu og tíundu skák.

9. c4 Rg6 10. Da4 Bd7 11. Db4 Bf5 12. h4 h5 13. Da4 Bd7 14. Db4 Bf5 15. Be3

Hann gat auðvitað þráleikið til jafnteflis með 15. Da4 en reynir að tefla til vinnings.

15….a6 16. Rc3 Dc7 17. g3 Be7 18. f3 Rf8 19. Re4 Rd7 20. Bd3 0-0 21. Hh2 Hac8 22. 0-0-0 Bg6 23. Hc2 f5 24. Rf2 Rc5 25. f4 a5 26. Dd2 e4 27. Be2 Be8 28. Kb1 Bf6 29. He1 a4 30. Db4 g6 31. Hd1 Ha8

– og hér var samið jafntefli. Það er allt lokað í peðastöðunni á kóngsvæng og varla hægt að brjótast í gegn drottningarmegin.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 27. nóvember 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

 

- Auglýsing -