Kátur heimsmeistari Magnús Carlsen var að vonum glaður í bragði á blaðamannafundi í gærkvöldi. Fabiano Caruana, sem sést í baksýn, var ekki eins glaðlegur enda hafði Carlsen yfirburði í bráðabananum í gær. Mynd: Chess.com

Magnús Carlsen varði heimsmeistaratitilinn í þriðja sinn í gær er hann vann allar þrjár atskákirnar sem hann tefldi við Fabiano Caruana, en eftir jafnteflin tólf í kappskákunum lá fyrir að einvígi þeirra yrði útkljáð í skákum með minni umhugsunartíma. Magnús vann Sergei Karjakin í fjórum atskákum, 3:1, í New York haustið 2016 og og hefur því tvívegis náð að verja titilinn með þessum hætti.

Fáir standast norska heimsmeistaranum snúning í styttri skákum og hann tefldi af miklu öryggi í gær og Caruana fékk engin færi. Hitt er svo annað mál að í fyrstu atskákinni mætti Caruana ákveðinn til leiks og gat náð jafntefli eftir að hafa verið í varnarstöðu um skeið. Þegar þessi staða kom upp eftir 37. leik hvíts var vissulega farið að saxast á tímann, en tímamörkin voru 25 10. Þó hefði hann átt að finna bestu vörnina:

Heimsmeistaraeinvígið í London, 13. skák:

Magnus Carlsen – Fabiano Caruana

Magnús hafði síðast leikið 37. Hc4-c7. Peðið á e4 er dæmt til að falla en það er spurning um rétta tímasetningu hvenær best er að hirða það.

37. … Kxe4??

Tapleikurinn. Hann varð að skjóta inn 37. … Ha2+! 38. Kh3 og nú 38. Kxe4 því að eftir 39. Kxg7 kemur 39…. Ha1! og heldur jafntefli, t.d. 40. Hg5 Kf3! o.s.frv. eða 40. Hb7 Hf1 og f5 peðið fellur.

38. He7+! Kxf5 39. Hxg7 Kf6 40. Hg5

Nú fellur h5-peðið og svartur ræður ekki við frípeð hvíts.

40. … a5 41. Hxa5 a4 42. Ha5

Svarti hrókurinn er í óvirkri aðstöðu á a-línunni en hinum megin getur sá hvíti stutt við sín frípeð. Lokin urðu…

42. … Ha1 43. Kf3 a3 44. Ha6+ Kg7 45. Kg2 Ha2+ 46. Kh3 Ha1 47. h5 Kh7 48. g4 Kg7 49. Kh4 a2 50. Kg5 Kf7 51. h6 Hb1 52. Ha7+ Kg8 53. Hxa2 Hb5+ 54. Kg6 Hb6+ 55. Kh5

– og nú ryðjast peðin fram. Við því er engin vörn og Caruana gafst upp.

Þetta tap virtist hafa slæm áhrif á Caruana. Svo virðist sem hann hafi talið sig knúinn að jafna metin þegar í stað og í annarri at-skákinni og þeirri fjórtándu í einvíginu fór hann of geyst fram:

Heimsmeistaraeinvígið í London, 14. skák:

Fabiano Caruana – Magnús Carlsen

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e5 6. Rdb5 d6 7. Rd5 Rxd5 8. exd5 Re7

Þeir tefla aftur eins og í 12. skákinni.

9. c4 Rg6 10. Da4 Bd7 11. Db4 Db8 12. h4 h5 13. Be3 a6 14. Rc3 a5 15. Db3 a4 16. Dd1 Be7 17. g3 Dc8 18. Be2 Bg4 19. Hc1 Bxe2 20. Dxe2 Df5

Þessi staða er sennilega í jafnvægi en hér sá Caruana sig knúinn til að láta vaða.

21. c5!? 0-0 22. c6 bxc6 23. dxc6 Hfc8 24. Dc4 Bd8 25. Rd5 e4!

Riddarinn virðist vel staðsettur á d5 en hvítur er ekki búinn að ljúka liðsskipan og svartur riddari er á leið á hættulegan stað, e5-reitinn. Nú er best að leika 26. Bd4 með flókinni stöðu þar sem möguleikar svarts eru sennilega betri. En Caruana teygði sig í c-peðið.

26. c7?? Bxc7!

Vitaskuld!

27. Rxc7 Re5 28. Rd5

Eða 28. Dd5 Hab8! og vinnur.

28….Kh7!

– og Caruana gafst upp.

Nú þurfti hann að vinna tvær síðustu skákirnar. Magnús gætti sín á því að tefla af miklu öryggi en lét þó finna fyrir sér þegar fram í sótti. Um tíma virtist staða hans viðsjárverð en aldrei kom Caruana lagi á hann og teygði sig að lokum of langt og tapaði því öllum þrem aukaskákunum.

Magnús Carlsen verður því heimsmeistari næstu tvö árin hið minnsta.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 29. nóvember 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

 

- Auglýsing -