Þeir félagar Mikhail Antipov og Ahmed Adly héldu sínu striki í áttundu umferðinni og unnu báðir góða sigra á andstæðingum sínum. Þau úrslit þýða að í lokaumferðinni mætast þeir í hreinni úrslitaskák. Antipov hefur hvítt og báðir eru þeir baráttuskákmenn þannig að búast má við flugeldum í lokaumferðinni. Enginn af þeim skákmönnum sem var í áfangasénsum náði að vinna sína skák þannig að enginn stórmeistaraáfangi mun nást á mótinu.

Hannes gegn Leitao:

Hannes tefldi af öryggi og vann peð í miðtaflinu. Punktinum var siglt heim af öryggi. Flott endurkoma hjá Hannesi eftir tapið í gær en Leitao virðist enn svekktur eftir jafnteflið frá því í gær þar sem hann hafði kolunnið tafl.

 

Dinara gegn Söru:

Sara þurfti að vinna með svörtu til að eiga möguleika á stórmeistaraáfanga. Drottningarindverjann gaf hinsvegar lítil færi á því að þessu sinni. Sara aldrei í stórkostlegum vandræðum en með aðeins verra í miðtaflinu. Hún komst svo í endatafl sem var líklegast jafntefli allan tímann.

 

Zhigalko gegn Héðni:

Zhigalko reyndi að kreysta og kreysta örlítið frumkvæði í langan tíma í skákinni. Á endanum tókst honum það þegar hann náði að þvinga uppskipti og fá unnið peðsendatafl.

 

Helgi gegn Antipov:

Skák Helga og Antipov í Grunfeldsvörn var mjög fjörug. Antipov bauð Helga snemma upp á að drepa heilan hrók en ljóst var að það myndi kosta drottningu Helga þó hann fengi annan hrók með. Helgi eyddi miklum tíma í flækjurnar en valdi að lokum öruggari leið. Helgi reyndi að hanga á peðayfirburðum á meðan að Antipov reyndi að nýta frumkvæðið og liðsskipan. Nokkrir flottir “afturábak leikir” hjá Antipov settu Helga í vandræði og staða hans hrundi í tímahraki.

 

Adly gegn Lomasov:

Adly tefldi virkilega flotta skák gegn Lomasov þar sem mun meira bjó undir en halda hefði mátt í fyrstu. Adly stoppaði í útsendingu og skýrði skákina….mjög flott skák þar sem undiraldan var alltaf að Adly leyfði andstæðingi sínum ekki að hrókfæra.

Skákir 8. umferðar

Úrslit 8. umferðar og pörun 9. umferðar

 

Staðan eftir 8 umferðir þegar aðeins ein umferð er eftir!

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -