Einbeitt Íranska stúlkan Khademalsharieh hefur staðið sig vel á Selfossi. — Morgunblaðið/Páll Jökull

Magnús Carlsen hristi af sér ólundina eftir tapið í Fischer-random-einvíginu fyrir Wesley So og hélt til Indlands, þar sem hann vann yfirburðasigur á næstsíðasta móti Grand Chess Tour. Tíu skákmenn tefldu einfalda umferð í atskák og tvöfalda umferð hraðskáka. Þegar atskákhlutanum var lokið var ljóst hvert stefndi. Magnús hafði hlotið 15 stig, eða 7½ vinning af 9 mögulegum, og hélt uppteknum hætti í hraðskákinni. Hann hefði næstum getað hætt keppni fyrir lokadag og samt unnið mótið en tók það fremur rólega enda plagaður af magapest. Mikið var undir hjá Anand, sem varð að vinna Magnús í næstsíðustu umferð til að komast í fjögurra manna lokamót syrpunnar. Magnús virtist ætla að sigla sigrinum í höfn en gáði ekki að sér í þessari stöðu. Vinningsmöguleikar geta leynst í slæmum stöðum:

Carlsen – Anand

Hvíta staðan er tiltölulega léttunnin eftir 48. c5!, t.d. 48…. Dd5 49. Rb4! o.s.frv. En Magnús lék …

48. Rc5??

Tekur riddarann úr varnarstöðu. Svarið kom um hæl…

48. … Hg6??

Eftir 49 … Hh6+! vinnur svartur, t.d. 49. Kg1 (ekki 49. gxh6 Dh4+! 50. Kg1 Dxe1+ 51. Kh2 Dxe5+ 52. Kg1 De3+! og mátar) 49. … d3! o.s.frv.

49. e6??

Best var 49. Re4! og hvítur á vinningsstöðu.

49…. Dd6+??

Hann gat aftur unnið með 49…. Hxg5, t.d. 50. e7 Dd6+ og vinnur.

50. Kg1 Hxg5 51. Re4!

– Riddarinn skundar til baka og Anand gafst upp.

Magnús hlaut 27 stig af 36 en Nakamura kom næstur með 23 stig. Giri og So urðu í 3.-4. sæti.

Adly og Antipov efstir á Selfossi

Egyptinn Ahmed Adly og Rússinn Antipov voru efstir fyrir síðustu umferð alþjóðlega skákmótsins á Selfossi. Þeir unnu báðir skákir sínar í 8. umferð. Staðan fyrir lokaumferðina var þessi: 1.-2. Adly og Antipov 5½ v. (af 8) 3.-4. Hannes Hlífar Stefánsson og Zhigalko 4½ v. 5.-6. Khademalsharieh og Lomasov 4 v. 7.-8. Leitao og Sadukassova 3½ v. 9. Héðinn Steingrímsson 3 v. 10. Helgi Áss Grétarsson 2 v.

Mótið er skipað 10 fyrrverandi heimsmeisturum ungmenna á ýmsum aldursstigum, þar af tveim stúlkum. Sarasadat Khademalsharieh frá Íran varð heimsmeistari stúlkna 12 ára og yngri árið 2009 og hefur unnið fjölmarga titla síðan. Í 7. umferð velgdi hún forystusauðnum undir uggum:

Antipov – Sarasadat Khademalsharieh

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. 0-0 Rf6 5. d3 d6 6. c3 a6 7. a4 Ba7 8. He1 Rg4

Í þekktri stöðu er þessi leikur furðu sjaldséður. Best er að svara með 9. He2 en Antipov hefur aðrar hugmyndir.

9. d4? exd4!

10. Bg5!?

Kannski sást honum yfir að 10. cxd4 er svarað með 10…. Rxd4! með hugmyndinni 11. Rxd4 Dh4! o.s.frv. Þannig gengur ekki 12. Rf3 vegna 12… Dxf2+ 13. Kh1 Dg1+! og 14…. Rf2 mát.

10…. f6 11. Bh4 Rge5 12. Rxe5 dxe5 13. Kh1 Dd6 14. f4

Byrjun hvíts hefur gjörsamlega misheppnast og þessi peðsframrás gerir bara illt verra.

14…. Bd7 15. fxe5 Rxe5 16. Bd5 Rg4!

Vinningsleikurinn sem hótar 17…. Dxh2 mát. Ef nú 17. Bg3 þá kemur 17…. Dxg3! 18. hxg3 Rf2+ með vinningsstöðu.

17. e5

Þessi atlaga er ekki hættuleg.

17…. Dxd5 18. exf6+ Kf8 19. fxg7+ Kxg7 20. He7+ Kg6 21. h3 Hae8 22. Hxe8 Hxe8 23. Df1 Hf8!

– og hvítur gafst upp.

Í opna flokknum hefur Hjörvar Steinn Grétarsson þegar tryggt sér sigur með fullu húsi vinninga.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 30. nóvember

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -