Harður í horn að taka Vachier-Lagrave.

Eftir að áskorendamótinu var frestað í miðjum klíðum á dögunum færðist skákin alfarið yfir á netið. Hér á landi eru haldin netmót á hverjum einasta degi og mikið líf í tuskunum. Það segir auðvitað talsvert um aðlögunarhæfni skákarinnar og möguleikar á framsetningu virðast takmarkalausir. Vinsælasti vefurinn er án efa chess.com og þegar greinarhöfundur leit þar inn sl. miðvikudag höfðu verið tefldar í kringum fimm milljónir skáka þann daginn. Meðlimafjöldinn nálgast 40 milljónir.

Aðaláhyggjuefni á þessum vettvangi snýst um tölvusvindl en hugbúnaður vefþjónanna er öflugur og ef upp kemst um svindl er viðkomandi umsvifalaust settur í keppnisbann.

Við bestu aðstæður á alvarlegri mótum, t.d. með tímamörkum atskáka, eru keppendur hafðir í sama rými, hver með sína tölvu með innbyggða myndavél sem fylgist með hverri hreyfingu. Þannig voru t.d. aðstæður þegar Puffins, sterkasta netskáksveit sem íslenskt lið hefur getað stillt upp, tók þátt í efstu deild Pro league fyrir nokkrum misserum. Þar leit dagsins ljós ein skemmtilegasta viðureign sem greinarhöfundur hefur teflt á netinu, merkilega innihaldsrík miðað við tímamörkin, 15 2. Franska liðið sem við mættum var geysisterkt og ég fékk það hlutverk að mæta Vachier-Lagrave.

Þær skylmingar sem fram fóru hófust fyrir alvöru í 25. leik, tóku smá hlé í 42. leik, en síðan kom 48. leikur svarts, lærdómsríkur um margt:

Pro league 2018:

Vachier-Lagrave – Helgi Ólafsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. Bb5 Rc6 4. 0-0 Bd7 5. c3 Rf6 6. He1 a6 7. Bc4 b5 8. Bf1 Bg4 9. a4 b4 10. h3 Bxf3 11. Dxf3 g6 12. d3 Bg7 13. Be3 Rd7 14. Hc1 0-0 15. Rd2 Hb8 16. Dd1 f5 17. exf5 gxf5 18. g3 e5 19. Bg2 Ra5 20. f4 exf4 21. Bxf4 Re5 22. Bd5+ Kh8 23. Rf3 bxc3 24. bxc3 c4?!

Hæpið. Eftir 24. … Rxf3+ 25. Dxf3 Rb3 er staðan í jafnvægi.

25. dxc4 Rb3 26. Rd4?! Rxa1 27. Hxa1 Hb2?!

„Vélarnar“ mæla með 26. … Df6 til að svara 27. Re6 með 27. … Hfc8 og hanga á liðsvinningi sínum.

28. Re6 Db6+ 29. c5! dxc5 30. Rxg7 c4+ 31. Dd4!

Ekki 31. Kh1 Rd3! og svartur vinnur. Nú eru góð ráð dýr!

31. … Dxd4 32. cxd4 Rd3!

Ekki eins dýr og þér haldið! Miklar vonir voru nú bundnar við c-peðið.

33. Bh6

Betra var 33. Rh5.

33. … Hf6! 34. Bxc4!

Með hugmyndinni 34. … Hxh6 35. Rxf6 og 36. Bxd3.

34. … Rf2! 35. Bc1 Rxh3 36. Kh1 Hc2 37. Bb3 Hc3 38. Rh5 Hfc6

Báðir biskupar hvíts eru í uppnámi. Hvað skal nú til varnar verða?

39. Bb2! Hxb3 40. d5+ Hxb2 41. dxc6 Hc2

Liðsafli er aftur jafn. Er c6-peðið ekki að falla?

 

 

42. Hb1!

Nei! Hann hótar máti á b8!

42. … Kg8 43. Hb6 Kf7 44. Hxa6 Kg6!

Vandi hvíts liggur í slæmri stöðu riddarans og lélegri kóngsstöðu.

45. Rf4+ Rxf4 46. gxf4 Kh5 47. Hb6 Kg4! 48. Kg1

Ekki 48. a5 Kg3! 49. Hb3+ Kxf4 o.s.frv.

48. … Hc5!

Setur góða bremsu á frípeð hvíts.

49. Kf2 Kxf4 50. a5 Hxa5 51. Hb4+ Kg5

Í tímahraki beggja var hann að vonast eftir 51. … Ke5 52. c7 Hc5 53. Hb5! o.s.frv. en ég hefði samt átt að leika kónginum til e5 því að í stað 52. … Hc5 má leika 52. … Ha2+! og síðan 53. … Hc2.

52. Hc4 Ha8 53. c7 Hc8 54. Hc6 Kf4 55. Hc4 Ke5 56. Kf3 Kd6 57. Kf4 Hxc7 58. Hxc7 Kxc7 59. Kxf5 h5 60. Kg5 h4 61. Kxh4

– Jafntefli.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 11. apríl 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -