
Birkir Hallmundarson tefldi á 4. borði í beinni útsendingu lokaumferðar Opins flokks heimsmeistaramóts ungmenna 10 ára og yngri í Egyptalandi sl. fimmtudag. Andstæðingur hans var stigahæsti keppandi mótsins, Tyrkinn Sarp Sahin, með 2.146 elo-stig, þ.e.a.s. 600 stigum hærri en Birkir. En elo-stig tefla ekki og Birkir vann skákina snarlega í 28 leikjum.
Kraftmikið niðurlag viðureignarinnar var með þessum hætti:
HM ungmenna 10 ára og yngri, Sharm el Sheik Egyptalandi, 2023:
Birkir Hallmundarson – Sarp Sahin
24. Rb8!
Hótar biskupinum og máti í þremur leikjum, 25. Rd7+ Ke8 26. Rxf6+ Kf8 og 27. Rh7 mát.
24. … Bc8 25. Bd7! Bb7 26. Bxe6! fxe6 27. Rd7+! Kf7 28. Rxh6+
– og svartur gafst upp. Hrókurinn fellur og biskuparnir fjúka líka.
Birkir hlaut því átta vinninga af 11 mögulegum og varð í 5. sæti með þremur öðrum keppendum. Þátttakendur voru 113 talsins en sigurvegarinn, Danis Kuandykuly, er frá Kasakstan. Hann hlaut níu vinninga. Í sæti á stigum varð Ethan Guo frá Bandaríkjunum með 8½ vinning.
Árangur Birkis er stórglæsilegur, einkum þegar litið er til samsetningar mótsins. Á alþjóðavettvangi er staðan í dag sú að keppendur frá V-Evrópu og Norðurlöndunum sjást ekki nema á stangli. Stórveldi skákarinnar, Indland, Kína, Víetnam, Úsbekistan, Rússland og Bandaríkin, svo nokkrar þjóðir séu nefndar, eiga keppendur sem flykkjast hins vegar á þessi mót.
Segja má að Omar Salama, sem er fæddur og uppalinn í Egyptalandi, hafi tekið að sér vera leiðsögumaður fyrir íslensku keppendurna tvo en sonur hans, Josef Omarsson, fékk 5½ vinning af 11 í opnum flokki 12 ára og yngri, sem er vel viðunandi frammistaða í svo sterku móti.
Greinarhöfundur sá um undirbúning Birkis á zoom fyrir hverja umferð og faðir hans, Hallmundur, sem var með í för, var duglegur að afla upplýsinga. En þessi aðferð, að nota fjarfundarbúnað við undirbúning, gafst vel og á eftir að nýtast í framtíðinni. Tökum dæmi um vel heppnaða byrjun í mikilvægri viðureign í sjöttu umferð:
HM ungmenna 10 ára og yngri, Sharm el Sheik Egyptalandi 2023:
Alex Szakolczai (Ungverjalandi) – Birkir Hallmundarson
Drottningarbragð
1. d4 d5 2. c4 e6 3. Rc3 Be7 4. Rf3 Rf6 5. Bf4 0-0 6. e3 b6
Út frá uppbyggingu stöðunnar síðar er þessi leikur skynsamlegur þó að 6. … c5 eða 6. … Rbd7 séu mun algengari leikir.
7. a3 Bb7 8. Bd3 dxc4 9. Bxc4 c5 10. Hc1 Rc6 11. 0-0 cxd4 12. exd4 Hc8 13. Ba2 Bd6 14. Bg5 h6 15. Bh4 g5 16. Bg3 Bxg3 17. hxg3 Re7!
Þetta hlýtur að mega flokka sem frekar „menntaðan leik“ frá einum 10 ára. Frá e7 stefnir riddarinn á nokkra góða reiti.
18. Re5 Rf5 19. Re2 Hxc1 20. Dxc1 Rxd4 21. De3 Rxe2 22. Dxe2 Bd5 23. Bb1 Rd7
Valið var erfitt því að Birkir óttaðist 24. f4.
24. Dd3 f5 25. Rxd7 Dxd7 26. Ba2 Hd8 27. Hd1 Df7 28. De3 Hd7 29. Dd4?
Afleitur leikur en Ungverjinn vildi ekki uppskipti á d5 sem hefði gefið jafnteflisfæri.
29. … Bc6!
Vinnur lið og eftirleikurinn vefst ekki fyrir Birki, sem snarar mótstöðumanninn í mátnet.
30. He1 Hxd4 31. Bxe6 Kf8 32. Bxf7 Kxf7 33. Hc1 Hd6 34. Kf1 He6 35. f3 a5 36. Kf2 Bb5 37. Kg1 Kf6 38. Hc2 Ke5 39. Kf2 Kd4 40. f4 Kd3 41. Hc3 Kd2 42. fxg5 hxg5 43. Hf3 Bd3 44. b4 g4 45. Hf4 He1 46. Hd4 Hf1 mát.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 28. október 2023