Indverja má kalla stórveldi skákarinnar í dag, sem sést kannski best á því að á síðasta áskorendamóti áttu þeir þrjá af átta keppendum og einn þeirra, Dommaraju Gukesh, vann mótið og teflir um heimsmeistaratitilinn við Ding Liren í nóvember. Á Ólympíumótinu í Búdapest eru þeir að vísu í 2. sæti á styrkleikalistanum í Opna flokknum rétt á eftir sveit Bandaríkjanna, sem hafa innan sinna vébanda nokkra „málaliða skákarinnar“. Þarna er Kúbumaður, Armeni, Filippseyingur og Caruana sem var skráður Ítali um tíma. Reglur FIDE um þessi mál eru ekki nándar nærri eins sanngjarnar eins og þær sem t.d. alþjóða knattspyrnusambandið FIFA hefur mótað.
Við fögnuðum því er við mættum Indverjum í annarri umferð. Þvílík áskorun; hér gafst nýliðunum tækifæri til að tefla við bestu skákmenn heims. Vignir Vatnar nýkominn frá Kanaríeyjum, þar sem hann vann tvö mót, tefldi á 1. borði við Gukesh. Skákirnar fjórar voru allar afar athyglisverðar þótt við töpuðum á öllum borðum. Vignir átti góð færi eftir byrjunina en missti þráðinn og tapaði. Framan af voru Hilmir Freyr og Helgi Áss með bestu stöðurnar. Helgi fylgdi ekki nægjanlega vel eftir góðri byrjun, lenti í óvirkri stöðu en barðist vel. Lengi vel héldu viðstaddir að hann myndi tapa skákinni en svo kom upp þessi staða:
ÓL í Búdapest 2024, 2. umferð:
Pentala Harikrishna – Helgi Áss Grétarsson
Helgi átti eitthvað innan við þrjár mínútur eftir en það bætast alltaf 30 sekúndur við eftir hvern gerðan leik. Hann velti fyrir sér að leika 54. … e2 en sá ekkert svar eftir 55. Dh5 því að hvítur mátar eftir 55. … e1(D) 56, Hxf7+ Þessi vegna valdi hann að leika 54. … De1 en þá kom 55. Bxf7 Hxf7 56. Hxf7+ Kxf7 57. b7 e2 58. Dh5! og svartur gafst upp. En þegar betur er að gáð getur svartur unnið! Aðalafbrigðið er svona 54. … e2! 55, Dh5 g4+! 56. Dxg4+ Kh8! t.d. 57. Hxf7 Dh6+! og 58. … e1(D).
Víkur þá sögunni að skák Hilmis Freys á 3. borði. Við förum hratt yfir sögu. Byrjunarundirbúningur Hilmis gegn Caro-Kann-vörn var góður og eftir 17 leiki kom upp staða sem „vélarnar“ telja hartnær unna á hvítt:
ÓL í Búdapest 2024; 2. umferð:
Hilmir Freyr Heimisson – Santosh Vidit
Caro-Kann-vörn
1. e4 c6 2. d4 d5 3. e5 Bf5 4. Rd2 e6 5. Rb3 Rd7 6. Rf3 Re7 7. Be2 h6 8. 0-0 Bh7 9. a4 a5 10. Bd2 Rc8 11. Hc1 Be7 12. De1 b6 13. h3 0-0 14. c4 Be4 15. Rh2 c5 16. f3 dxc4 17. Bxc4 Bc6
18. Rg4
Ekki slæmur leikur en eftir 18. f4! er svarta staðan rústir einar að mati „vélanna“ t.d. 18. … Bxa4 19. De4! Hb8 20. Rg4 og svartur á ekkert betra en 20. … f5 sem hvítur getur svarað með 21. Rxh6+! gxh6 22. Bxe6+ Kh7 22. Df3 og svartur fær við ekki við neitt ráðið. Nú tók við hörkubarátta þar sem Vidit fann marga góða leiki.
18. … h5 19. Rf2 Bxa4 20. De4 Ha7 21. g4 h4 22. d5 exd5 23. Bxd5 c4!? 24. Bxc4 Rxe5 25. Dxe5 Bxb3 26. Bxb3 Dxd2 27. Bxf7+?! Kxf7 28. Hxc8 Hxc8 29. Df5+ Bf6 30. Dxc8 He7?
30. … Bd4! var best.
31. Re4 Df4
32. Dc6?
Hann var naumur á tíma en eftir 32. Dc4+ Kf8 33. Hd1! er staðan nokkurn veginn í jafnvægi.
32. … Be5! 33. Hf2? Hc7 34. Dd5 Ke7! 35. Hd2 Hc1 36. Kf2 Dh2 37. Ke3 Bf4 38. Kd3 Bxd2 39. Dd4 Bh6
– og hvítur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 14. september 2024