Bobby Fischer í sérdelis góðum félagsskap

Föstudaginn þann 14. mars lagði hópur 24 krakka af stað í skákbúðir á Selfossi. Krakkarnir í ferðinni voru allt krakkar sem hefðu við eðlilegar aðstæður farið erlendis á skákmót á árinu 2020 en vegna Covid voru flest öll alþjóðleg mót felld niður sem og sjálft Reykjavíkurskákmótið.

Greina mátti mikla tilhlökkun úr andliti krakkana. Eftir að hafa komið sér fyrir á hótelinu var hópnum skipt í þrennt og kennsla hófst. Auk kennslu var farið í hina ýmsu skákleiki svo sem heilinn og höndin, tvískák og mjög svo skemmtilegu fjölteflis-boðhlaupi. Að auki var auðvitað fylgst af mikilli spennu með Íslandsbikarnum. Eftir kvöldmat var svo haldin spurningakeppni þar sem hópurinn skipti sér í lið Hlunkanna sem síðan vann lið Magga Mix and his crew.

Laugardagurinn byrjaði snemma á kennslu þar sem meðal annars var farið í mikilvæga þætti byrjana. Þá voru skákir Fischers skoðaðar ásamt því að farið var í lítið Fischer slembimót. Stefán Bergsson fór svo með hópinn að leiði Fischers og á Fischersetrið. Að því loknu var slegið upp skákmóti.

Þar var Vignir Vatnar Stefánsson í miklu stuði og vann mótið með fullu húsi. Hann fékk í verðlaun bók Helga Ólafssonar um Friðrik Ólafsson – árita af báðum! Annar varð Alexander Oliver Mai. Þeir báðir verða meðal keppenda í landsliðsflokki Íslandsmótsins í skák sem hefst í Kópavogi 30. mars nk.  Alexander Oliver fékk í verðlaun ársáskrift að New In Chess ásamt Gunnari Erik Guðmundssyni, Benedikt Briem, Kristján Degi Jónssyni og Matthías Björgvini Kjartanssyni sem urðu í næstu sætum.

Lokastöðuna má finna á Chess-Results.

Eftir lokakennslu og hádegismat á sunnudeginum kom til okkar nýjasti stórmeistari Íslands Guðmundur Kjartansson. Teflt var frábært fjöltefli og hafði Guðmundur orð á því að þetta væru hans fyrstu skákir eftir að hafa náð stórmeistaratitlinum. Einhverjar skákir fóru í bið og verða kláraðar í lok vikunnar. Þökkum Guðmundi kærlega fyrir komuna og gefa sér tíma til að tefla við mögulega framtíðar stórmeistara.

Skáksamband Íslands sá um skipulagningu ferðarinnar og var fulltrúi sambandsins á Selfossi Jóhanna Björg. Skipulagning kennslu var í góðum höndum Helga Ólafsonar og Skákskóla Íslands. Kennarar voru Helgi Ólafsson, Lenka Ptacnikova, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Vignir Vatnar Stefánsson.

Skáksamband Íslands ásamt Skákskóla Íslands þakka öllum nemendum fyrir frábæra og skemmtilega helgi!

Vonandi verður hér framhald því ferð eins og þessi eykur skákgetu, eykur samkennd og liðsanda!

Covid-styrkur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu gerði þessar skákbúðir mögulegar og viljum færa ráðuneytinu kæra þakkir fyrir. Afar mikilvægt til að vega móti skorti á alþjóðlegum mótum undanfarið!

Myndirnar tóku Ingibjörg Arnljódóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Lenka Ptácníková.