Spennan í lokaumferðinni var mögnuð. Mynd: Ingibjörg Edda

Íslandsmótinu í skák lauk fyrir nokkrum mínútum síðan. Hjörvar Steinn Grétarsson varð Íslandsmeistari í skák í fyrsta skipti eftir magnaða lokaumferð. Fyrir umferðina hafði Hjörvar hálfs vinnings forskot á Jóhann Hjartarson. Hjörvar tefldi við Sigurbjörn Björnsson en Jóhann við Hannes Hlífar Stefánsson.

Svo fór að þetta voru tvær síðustu skákirnar og spennan rafmögnuð í skáksalnum. Hjörvar hafði eilítið betra gegn Sigurbirni en staðan var lengi vel afar óljós og spennandi hjá Jóhanni og Hannesi.

Jóhann sneri á Hannes og vann efir miklar og óljósar flækjur. Þá var eina spurningin hvort að Hjörvar ynni Sigurbjörn eða gerði jafntefli sem myndi þýða aukakeppni þeirra á milli á morgun. Svo fór að Hjörvar lagði Sigurbjörn að velli með afar kraftmikilli og góðri taflmennsku.

Þetta er í fyrsta skipti sem Hjörvar hampar titlinum sem er magnað enda lengi verið sterkasti skákmaður landsins og vann Íslandsbikarinn um daginn. Virkilega verðskuldaður sigur hjá honum. Tefldi heilt yfir ákaflega vel og vandað.

Jóhann varð annar og Guðmundur Kjartansson, fráfarandi Íslandsmeistari þriðji. Bragi Þorfinnsson varð fjórði. Vignir Vatnar Stefánsson varð fimmti og náði um leið sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Vantar nú aðeins einn áfanga til að verða útnefndur alþjóðlegur meistari.

Lokastöðuna má finna hér: http://chess-results.com/tnr552992.aspx?lan=1&art=4&flag=30.

Teflt var við frábærar aðstæður í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi.

Kópavogsbær, Arion banki, Brim og Teva og aðrir styrktaraðilar fá miklar þakkir fyrir stuðninginn.

Mótinu verður gerð betri skil síðar!