Ólympíuskákmótið árið 2018 verður sett í Batumi í Georgíu mánudaginn 24. september næstkomandi. Ísland sendir að sjálfsögðu lið í opin flokk og kvennaflokk og verður alls 17 manna hópur af keppendum, fararstjórum, liðsstjórum og skákdómurum á svæðinu!

Í tilefni af mótinu ætlar Skak.is að slá upp léttum getraunaleik þar sem lesendur Skak.is geta giskað á sigurvegara mótsins og fleira góðgæti. Allir geta tekið þátt og stig eru gefin fyrir svörin og mismikið eftir erfiðleikastigi og geðþótta spurningahöfundar.

Þátttaka í leiknum ætti að hleypa aðeins meira lífi í hvernig hinn almenni skákáhugamaður fylgist með mótinu en Skak.is mun gera mótinu mikil og góð skil hér á síðunni með ýmsum hætti og ýmsum nýjungum!

Hægt er að taka þátt með því að smella hér. Formið ætti að skýra sig sjálft að mestu en í sviga er stigafjöldi í boði fyrir hvert svar en mest er hægt að fá 100 stig ef allt er rétt.

Hægt verður að senda inn svör fram að 1. umferð sem hefst 11:00, mánudaginn 24. september. Skemmtileg verðlaun verða í boði en þau verða kynnt síðar.

- Auglýsing -