Ólafur kampakátur með verðlaunin. Forsetinn hlær. Mynd: ESE

Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri í atskák var háð í Ásgarði félagsheimili FEB sl. þriðjudag á vegum skákklúbba eldri borgara, Riddarans og Æsis, í samstarfi við SÍ.

Mótið fór hið besta fram og var spennuþrungið undir lokin  enda öflugur hópur eldri skákmanna mættur.  Alls voru keppendur 34 talsins, mun fleiri en í undanfarin ár enda nú teflt á venjulegum tafldegi í Stangarhyl en ekki á laugardegi eins og áður.  Góður keppninsandi sveif yfir vötnunum eftir að Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB hafði ýtt mótinu úr vör með því að leika fyrsta leikinn að loknum nokkrum opnunarorðum Einars Ess, formanns mótsnefndar.

Ýmsir góð- og gamalkunnir garpar voru mættir til keppni albúnir þess að selja sig dýrt eins og fyrri daginn.  Um mitt mót voru þeir Ólafur, Július, Kristján og Björgvin allir jafnir með 5 vinninga og keppnin orðin æsispennandi eins best gerist.  Eftir harðan endasprett stóð Ólafur Kristjánsson uppi sem sigurvegari og með 8 vinninga af níu mögulegum og hrósaði Íslandsmeistaratitilinum fyrir árið 2018-19.  Björgvin Víglundsson, fyrrv. meistari til fjögurra ára,  var jafn honun að vinningum en örlítið lægri að mótsstigum, sem riðu baggamuninn eins og nú tíðkast í mótum af þessu tagi – engin einvígi eins og áður var.  Júlíus Friðjónsson varð þriðji með 7 vinninga og Kristján Stefánsson,  fjórði með 6 vinninga ásamt þeim Braga Halldórssyni og Sævari Bjarnasyni. Síðan fór að teigast úr röðinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mótstöflu hér að neðan.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins var mættur til að krýna hinn nýorðna meistara, sem hlaut fagran minjagrip til eignar auk þess að fá nafn sitt skráð gullnu letri á farandgrip sem Jói Útherji, gaf til keppninnar í upphafi.

Mótshaldarar þakka FEB og öðrum styrktaraðilum mótsins veittan stuðning og fyrirgreiðslu.     / ESE