Búið er að velja landslið Ísland sem mun taka þátt á Evrópumóti landsliðs sem hefst 23. október næstkomandi í Batumi í Georgíu.

Landsliðseinvaldurinn Ingvar Þór Jóhannesson lagði áherslu á virkni liðsmanna og eru allir liðsmenn með um og yfir 80 kappskákir á síðustu tveimur almanaksárum. Stefnt verður að því að halda sömu línu og því er það vonin að þeir sem ekki voru valdir að þessu sinni verði virkari við skákborðið á næstunni. Vert er að nefna að Jóhann Hjartarson gaf ekki kost á sér í þetta verkefni.

Liðsmenn sem voru valdir í þetta verkefni eru:

Hannes sigurvegari alþjóðlega mótsins í Prag. Mynd: Heimasíða mótsins.

Íslandsmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2539) átti sjálfkrafa rétt á sæti í landsliðinu eftir sigur á opna Íslandsmótinu á Akureyri. Hannes er okkar virkasti stórmeistari og hefur verið í fínu formi árið 2019 og vann meðal annars alþjóðlegt mót í Tékklandi.

Bragi Þorfinnsson (2449) tekur nú í fyrsta skipti þátt í landsliðskeppni sem stórmeistari en hann er nýjasti stórmeistari Íslendinga. Bragi tók bæði þátt á Íslandsmótinu og Reykjavíkurskákmótinu og náði bestum árangri Íslendinga á Reykjavíkurskákmótinu sé litið til stigaframmistöðu þar sem hann lagði m.a. Abhijeet Gupta (2602) og Johan-Sebastian Christansen (2571) að velli.

Hannes og Guðmundur að tafli á EM landsliða á Krít 2017.

Guðmundur Kjartansson 2445 hefur verið langvirkasti skákmaður okkar undanfarin misseri ásamt Hannesi Hlífari. Guðmundur er með yfir 200 kappskákir á síðustu tveim almanaksárum og sigraði nýlega á alþjóðlegu skákmóti á Ítalíu.

Helgi Áss með sjálfu frá Krít. Áfram Helgi!

Íslandsmeistarinn 2018, Helgi Áss Grétarsson, er einnig valinn í þetta verkefni. Helgi hefur verið mjög duglegur við skákborðið undanfarið og er þessa stundina að tafli á Krít sem er endapunkturinn á löngum skáktúr hjá Helga sem spannar í heildina fimm kappskákmót.

Dagur Ragnarsson í Kanada.. Mynd: Facebook-síða mótsins.

Dagur Ragnarsson (2388) fær sína eldskírn á þessu Evrópumóti. Dagur hóf árið 2019 með glæsilegum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli á skákmóti í Kanada. Dagur átti einnig fína spretti á Reykjavíkurskákmótinu þar sem hann gerði jafntefli við Jorden van Foreest (2598) og vann Frakkann Matthieu Cornette (2556).

Heimasíða mótsins