Sulypa og Björn Ívar í heimsókn þess fyrrnefnda fyrr í ár.

Óskað er eftir umsóknum frá nemendum í verkefnið Skákframtíðina. Tilgangur verkefnisins er að gefa ungu og efnilegu afreksfólki tækifæri til þess að sækja sér aukaæfingar í skák. Skáksamband Íslands stendur að verkefninu sem hefur staðið síðan í vor síðastliðið og hefur gengið afar vel.

Kennslan fer fram á ensku en íslenskur þjálfari mun aðstoða við að túlka yfir á íslensku og útskýra nánar þegar við á. Skáktímarnir fara fram með hópsímtali á Skype og þar geta nemendur fylgst með kennslunni, tekið þátt og spurt eða svarað spurningum. Tímarnir eru öllu jöfnu þrisvar sinnum í mánuði og hver tími er um 1,5-2 klst. að lengd. Nemendur fá þar að auki heimaverkefni tvisvar sinnum í mánuði sem þeir skila til þjálfara og fá til baka leiðbeiningar um það sem betur má fara.

Úkraínsku stórmeistararnir og þjálfararnir Oleksandr Sulypa og Adrian Mikhalchishin sjá um kennsluna ásamt FIDE-meistaranum Birni Ívari Karlssyni. Sulypa er landsliðsþjálfari Úkraínu, eins sterkasta landsliðs heims, og Mikhalchisihin hefur verið yfirþjálfari FIDE um árabil, en auk þess að gegna stöðu landsliðsþjálfara kvennaliðs Tyrklands hefur hann ritað fjölmargar skákbækur.

Haustönn Skákframtíðarinnar hefst með heimsókn Sulypa til landsins í lok september og munu nemendur taka þátt í æfingabúðum með honum og Birni Ívari.

Skákframtíðin er tilvalinn vettvangur fyrir áhugasamt ungt fólk, bæði stúlkur og drengi, sem vilja bæta við sig þekkingu og ná enn lengra í skákinni.

Kostnaður við þátttöku í verkefninu er 60.000 kr. fyrir árið.

Umsóknir sendast á skakframtidin@gmail.com. Í umsókninni þarf að koma fram nafn nemanda, skákstig og aldur.