Björgvin Víglundsson Íslandsmeistari öldunga 65 ára og eldri. Mynd: KÖE

Björgvin Víglundsson (2188) varð í gær Íslandsmeistari öldunga 65 ára og eldri. Björgvin vann Jón Kristinsson (2107) í lokaumferðinni en á sama tíma gerði helsti andstæðingur hans Júlíus Friðjónsson (2115) jafntefli við Sævar Bjarnason (2096).

Úrslit 6. umferðar

Björgvin hlaut 4½ í 6 skákum og var taplaus. Vann tvær síðustu umferðirnar. Júlíus varð í 2.-3. sæti ásamt Áskeli Erni Kárasyni (2252). Júlíus fékk silfrið eftir stigaútreiking.

Flestir verðlaunahafar mótsins -ásamt forzetanum sem heldur á verðlaunum Júlíusar. Mynd: KÖE

Veitt voru þrjú verðlaun fyrir bestan árangur. Bragi Halldórsson hlaut verðlaun í flokki 70+. Björgvin var reyndar efstur í þeim flokki en fékk ekki fleiri verðlaun! Jón Kristinsson fékk verðlaun fyrir bestan árangur í flokki 75 ára og eldri og Páll G. Jónsson, aldursforseti mótsins, fékk verðlaun fyrir bestan árangur 80 ára og eldri.

Lokastaðan

Þessi tilraun að halda sér kappskákmót fyrir 65 ára og eldri tókst afar vel. Mótið var sterkt en hafði gjarnan mátt vera fjölmennara. Það hefur lítil hefð verið fyrir lengri skákum hjá eldri borgurum en þeir hafa því meira verið fyrir styttri skákirnar.

Framhald hlýtur á vera á þessu mótahaldi. Kannski þarf að slípa fyrirkomulagið.

Kristján Örn Elíasson stóð vaktina sem skákstjóri að langmestu leyti. Stjáni er ekki bara einn besti skákstjóri landsins heldur er hann fjölhæfur með afbrigðum. Hann brá sér líka í hlutverk útsendingarstjórans og sá til þess að hinn almenni skákáhugamaður gæti fylgst með lokaumferðum mótsins á vefnum og tók myndir.  Birna Halldórsdóttir fær þakkir fyrir alla aðstoðina við mótið.