Sjóður tileiknakður Sigtryggi Sigurðssyni, glímukappa, styður afar vel við íslenskt skáklíf.

Stjórn Skákstyrktarsjóðs Sigtryggs Sigurðssonar, glímukappa, hefur tekið ákvörðun um að veita Skáksambandi Íslands veglegan styrk að upphæð fjórar milljónir króna.

Kóróna-vírusinn hefur gert skákmönnum lífið leitt. Vírusinn hefur meðal annars orðið til þess að dregið hefur úr öllu alþjóðlegu mótahaldi. Má þar nefna að fella hefur þurft niður Reykjavíkurskákmótið í ár, ekkert Ólympíuskákmót er haldið, Evrópumóti einstaklinga hefur verið 2020 frestað, alþjóðlegar unglingakeppnir hafa flestar verið blásnar af og opin alþjóðleg skákmót í sumar að öllum líkindum öll fyrir bý.

Styrkurinn frá Skákstyrkarsjóðnum kemur þannig á góðum tíma til að takast á við það ástand sem ríkir í skákmótahaldi heimsins. Í því sambandi er til skoðunar að halda alþjóðlega skákhátíð á Íslandi í haust verði samgöngur til landsins nægilega opnar og fjöldatakmarkanir almannavarna ekki of íþyngjandi. Í því móti yrði reynt að búa til fyrirkomulag sem hentar íslenskum atvinnumönnum, áfangaveiðurum, okkar bestu skákkonum og efnilegum skákungmennum.

Þegar alþjóðlegt skákmótahald nær sér á strik á ný kemur styrkurinn að góðum notum svo Ísland megi þá eins og áður senda fulltrúa til leiks meðal þeirra bestu og efnilegustu af enn meiri krafti.

Stjórn Skáksambands Íslands færir Skákstyrktarsjóðnum kærar þakkir fyrir stuðninginn sem á án efa eftir að koma sér vel fyrir íslenskt skáklíf á komandi mánuðum.