Þessar tóku þátt í Íslandsmóti kvenna 2017 og núna!

Þrátt fyrir að lítið sé um stórmót og keppnisferðir undanfarna mánuði þá þýðir ekki að láta deigan síga. Ein af áherslum Skáksambands Íslands er að efla kvennaskák og partur af því er að efla þjálfun og samfellu í æfingum kvennalandsliðsins.

Ingvar þór

Ingvar Þór Jóhannesson hefur tekið að sér að sjá um reglulegar æfingar kvennalandsliðsins og fara þær fram með fjarfundafyrirkomulagi. Þessar æfingar hafa verið í gangi síðustu vikurnar með góðum árangri og verða áfram.

Þær sem skipað hafa hópinn eru:

Lenka Ptacnikova (2117)
Hallgerður Þorsteinsdóttir (2009)
Guðlaug Þorsteinsdóttir (1975)
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1935)
Lisseth Acevedo Mendez (1845)
Tinna Kristín Finnbogadóttir (1843)
Hrund Hauksdóttir (1819)
Verónika Steinunn Magnúsdóttir (1714)
Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (1665)
Sigríður Björg Helgadóttir (1641)

Lenka Ptacnikova, núverandi Íslandsmeistari kvenna Mynd: JHR

Nýlega ákvað landsliðsnefnd að þær skákkonur sem náð hafa 1600 skákstigum sé boðin þátttaka á æfingunum og í kjölfarið hafa Batel Goitom Haile (1587) og Ulker Gasanova (1557) fengið boð um að bætast í hópinn.

Stigalágmarkið ætti því að vera gott markmið fyrir okkar ungu og efnilegu skákstelpur að bæta sig og þannig komast inn í þennan æfingahóp nái þær stigamörkum.

Af æfingu kvennaliðsins á Zoom

Ástundum og áhugi hjá stelpunum hefur verið til fyrirmyndar og vonandi mun það skila sér í þéttari hóp og fyrirmyndum fyrir yngri iðkendur. Ljóst er að það er kynslóðabil sem þarf að brúa sem sýnir sig best í að það þurfti að leita niður í 13 ára stúlku á U20 kvennaborðið á nýafstöðnu Ólympíumóti á netinu. Hún stóð sig að vísu með mikilli prýði en þarna eru klárlega sóknarfæri í bætingu fyrir skákhreyfinguna.

Nokkrar ungar og efnilegar sem tóku þátt á EM ungmenna á netinu á dögunum. Matthías er líka efnilegur 🙂

Vonandi mun einhver af þeim ungu og efnilegu stelpum sem nú æfa með taflfélögunum taka Karólínu Leu Vilhjálmsdóttir sér til fyrirmyndar. Sú stúlka setti sér það markmið að komast í byrjunarlið landsliðsins að ári, og það tókst! (sjá frétt á Vísi.is). Viðmiðið er allavega ljóst, 1600 stig og nú er bara að setja á blað hvenær markmiðið á að nást!