Eftirfarandi bréf var sent á eftirfarandi aðila í gær.

  • Aðildarfélaga Skáksambands Íslands
  • Atvinnustórmeistara
  • Félag íslenskra stórmeistara
  • Skólastjóra og stjórnar Skákskóla Íslands
  • Stjórnar Launasjóðs í skák
  • Formenn fastanefnda SÍ

Öllum er velkomið að senda umögn.

Fyrirkomulag opinbers stuðnings við skákhreyfinguna

Reykjavík, 1. desember 2022

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur beint því til Skáksambands Íslands að móta heildstæða tillögu að nýju fyrirkomulagi styrkveitinga ríkisins til skákhreyfingarinnar. Á fundi sem forseti og varaforseti sambandsins áttu fyrr á árinu með ráðherra og fleiri starfsmönnum ráðuneytisins kom fram eindreginn vilji ráðuneytisins til að ráðast í breytingar á fyrirkomulagi styrkveitinganna, með það að markmiði bæta enn frekar árangur íslensks skákfólks. Þá kom fram að horft væri til þess að geta bæði stutt við stórmeistara og efnilega skákmenn. Enn fremur kom fram að ekki væru uppi áform um niðurskurð á þeim framlögum sem skákhreyfingin nýtur í heild.

Fyrst á annað borð stendur til að endurskoða stuðning ríkisins við skákhreyfinguna telur stjórn Skáksambands Íslands mikilvægt að hreyfingunni hafi verið gefið færi á að móta sjálf tillögur þar að lútandi, fremur en að þær verði innleiddar einhliða af hálfu ríkisins, og vill nýta tækifærið til að stuðla að því að mögulegar breytingar verði sem farsælastar fyrir íslenskt skáklíf. Þá telur stjórnin mikilvægt að víðtækt samráð fari fram áður en viðamiklar breytingar verða gerðar. Því vill stjórnin nú, áður en lengra er haldið, kalla eftir sjónarmiðum úr hreyfingunni varðandi framangreint, jafnt frá þeim sem njóta fjárstuðnings til skákiðkunar í núverandi kerfi og öðrum.

Fastur fjárstuðningur ríkisins við skákhreyfingarinnar er í meginatriðum þríþættur:

  • Framlag til launasjóðs stórmeistara í skák – nemur 33,3 millj.kr. árið 2022.
  • Framlag til Skákskóla Íslands – nemur 11,0 millj.kr. árið 2022.
  • Rekstrarframlag til Skáksambands Íslands – nemur 26,6 millj.kr. árið 2022.

Samanlagt nema föst framlög ríkisins til skákhreyfingarinnar því nú liðlega 70 millj.kr. en því til viðbótar nýtur skáksambandið stundum sérstakra styrkja vegna einstakra viðburða. Launasjóður stórmeistara í skák og Skákskóli Íslands starfa á grundvelli laga sem Alþingi setti árið 1990, launasjóðurinn á grundvelli laga nr. 58/1990 og skákskólinn á grundvelli laga nr. 76/1990. Skáksamband Íslands er aftur á móti, sem kunnugt er, frjáls félagasamtök skákfélaga og skákdeilda í landinu. Ætla má að þau tvenn lög sem hér voru nefnd sæti endurskoðun í umræddu ferli.

Hér með er óskað að sjónarmiðum um framangreint verði komið á framfæri við stjórn Skáksambands Íslands í síðasta lagi 15. desember 2022. Erindi má senda á netfangið skaksamband@skaksamband.is. Engar kröfur eru gerðar um form eða efni þeirra erinda sem berast en þó bent góðfúslega á að æskilegt kann að vera að hafa m.a. eftirfarandi spurningar í huga:

  • Hvernig væri opinberum fjármunum best varið með það höfuðmarkmið að leiðarljósi að hámarka framgang og árangur íslensks skáklífs og skákfólks?
  • Hverjir eru að þínu mati kostir og gallar núverandi kerfis?
  • Á að halda áfram að starfrækja launasjóð stórmeistara í skák, annaðhvort með óbreyttu eða breyttu sniði, eða geta þeir fjármunir sem veitt er til hans nýst íslensku skáklífi betur með öðrum hætti? Ef breytingar eru taldar æskilegar, þá hverjar og hvers vegna?
  • Er rétt að viðhalda eða breyta því fyrirkomulagi að það sé á hendi ríkisins að starfrækja launasjóð stórmeistara í skák og það ákveði m.a. hvaða stórmeistarar njóti launa úr sjóðnum, sem felur m.a. í sér að atvinnustórmeistarar teljast vera ríkisstarfmenn, eða ætti þetta vald að vera hjá skákhreyfingunni sjálfri?
  • Er rétt að breyta fyrirkomulagi þess stuðnings við skákmenn sem nú er á hendi launasjóðsins, t.d. skilyrðum fyrir styrkveitingum/launum úr sjóðnum? Ættu laun úr sjóðnum að vera í meira mæli tengd árangri og/eða ástundun og þá á hvaða hátt? Ættu aðrir en stórmeistarar undir einhverjum kringumstæðum að geta notið fjárframlaga úr sjóðnum, svo sem efnilegir skákmenn sem uppfylla tiltekin skilyrði eða skákmenn sem eru að leita eftir áföngum að stórmeistaratitlum eða jafnvel alþjóðlegum meistaratitlum?
  • Er rétt að viðhalda eða breyta þeim skyldum atvinnustórmeistara að sinna kennslu við Skákskóla Íslands?
  • Ætti að beina fjármunum í meira mæli í að styrkja skákmenn til þátttöku á mótum erlendis? Ef já, hvar ætti þá að skera niður á móti?
  • Ætti að beina fjármunum í meira mæli í þjálfun og kennslu landsliðsfólks? Ef já, hvar ætti þá að skera niður á móti?
  • Á að halda áfram að starfrækja Skákskóla Íslands, annaðhvort með óbreyttu eða breyttu sniði, eða geta þeir fjármunir sem veitt er til hans nýtt íslensku skáklífi betur með öðrum hætti? Ef breytingar eru taldar æskilegar, þá hverjar og hvers vegna?
  • Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri vegna þessa?

F.h. stjórnar Skáksambands Íslands
Gunnar Björnsson